SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir10. september 2020

Frumbirting á ljóði eftir Ásdísi Óladóttur

Skáld.is fékk góðfúslegt leyfi skáldkonunnar Ásdísar Óladóttur til að gefa smjörþef af væntanlegri ljóðabók hennar. Þar er meðal annars að finna ljóðið Umbreyting sem hefur aldrei áður birst á prenti. Hin frumlega ljóðapönkhljómsveit Gertrude and the flowers hefur þó flutt ljóðið en sveitin sú flytur lög við ljóð Ásdísar sem jafnframt er aðalsöngkona hennar.

Ásdís hefur sent frá sér sjö ljóðabækur, auk ljóðasafnins Sunnudagsbíltúr sem kom út árið 2015. Það er því beðið með mikilli eftirvæntingu eftir væntanlegri ljóðabók en hún ber titilinn Óstöðvandi skilaboð og kemur út 26. september næstkomandi.

UMBREYTING

Ég les í

grænmáluð augnlok,

svört tár

sem renna

niður vanga hennar

yfir símtólið

í skeifuna

sem liggur í bollanum,

á sama andartaki

er framtíðin ráðin

og beiskur sopinn

verður minn.