SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn27. september 2020

FYRSTA LJÓÐABÓK ÖNNU LÁRU

Anna Lára (f. 1966) hefur sent frá sér sína fyrstu ljóðabók sem ber titilinn VONIN.

Í bókinni er að finna bæði ljóð og örsögur og skiptist hún í 6 kafla sem nefnast: Sorgin, Leiftursókn, Farsæld, Í Fréttum er þetta helst ..., Örsögur og Vonin.

Ljóð Önnu Láru leika gjarnan á mörkum sorgar og gleði; þau lýsa sárri andlegri lífsreynslu, ást, þrá, tælingu, missi og örvæntingu.

Í örsögunum bregður höfundur á leik í fjölbreytilegum sögum þar sem greina má bæði háð og skop, en einnig ljóðrænar stemmningar og ádeilu.

VONIN er tileinkuð minningunni um eiginmann Önnu Láru, Jóhann Möller, sem lést á vormánuðum 2018. Bókin fæst í öllum helstu bókabúðum og má kaupa á netsíðum Forlagsins og Pennans-Eymundsson. Höfundarlaun af bókinni munu renna óskipt til hjartadeildar Landspítala.

Í kaflanum Í fréttum er þetta helst ... er að finna þetta ljóð:

 

 
Feigðarflótti
 
 
Ég flýt ekki á fleka á Miðjarðarhafi
 
ég bý í fínu húsi í forréttindalandi
 
ég á ekki barn sem drukknaði í flæðarmáli
undan ströndum Túnis í dag
 
ég á barn sem leikur sér úti
og býr við forskot í lífi og lifir í táli
 
Angi með andlit ofan í strandarsandi
endar sitt líf í ókunnu landi
 
Við augnabliks áhorf á fréttir
súpum við hveljur
 
hryllum okkur yfir veröldinni
og snúum okkur að öðru