SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir 1. október 2020

Veizla í boði Svövu

Næstkomandi sunnudag, 4. október, eru 90 ár frá því Svava Jakobsdóttir skáldkona fæddist. Af því tilefni verður boðið upp á frumflutning á verkinu Veizla í boði Svövu í Klúbbi Listahátíðar í Iðnó en Klúbburinn ásamt Leiklestrafélaginu standa fyrir viðburðinum. Sonur Svövu, Jakob S. Jónsson, leikhúsfræðingur og leikstjóri mun ásamt Þórunni Magneu Magnúsdóttir, leikkonu og leikstjóra dagskrárinnar, lesa nokkrar sögur úr safninu Veizla undir grjótvegg auk þess sem Jakob mun rifja upp nokkrar minningar af móður sinni. Líkt og segir í lýsingu á viðburðinum á Facebook var Svava einn frumkvöðla í módernískum skáldskap á Íslandi og aflaði sérstakur og súrrealískur frásagnarstíllinn henni vinsælda. Verk hennar voru oft bæði pólítísk og feminísk og mun túlkun Jakobs og Þórunnar Magneu varpa ljósi á nýjar hliðar á skáldskap Svövu.

Veizla í boði Svövu hefst kl. 16:00 og eru öll velkomin meðan húsrúm leyfir. Rýmið er þó takmarkað vegna smitvarna og er því vissara að láta taka frá sæti með því að senda pöntun á netfangið veizlaibodisvovu@gmail.com