SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir 2. desember 2017

Áberandi margar konur tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna

Íslensku bókmenntaverðlaunin 2017

Í gær voru tilkynntar tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og eru margar flottar skáldkonur þar á meðal. Skáld.is óskar þeim til hamingju með tilnefningarnar.

Í flokki fagurbókmennta sátu í dómnefnd Helga Ferdinandsdóttir (formaður), Bergsteinn Sigurðsson og Steingrímur Þórðarson. Verkin sem þau tilnefna eftir konur eru Kóngulær í sýningargluggum eftir Kristínu Ómarsdóttur, Elín, ýmislegt eftir Kristínu Eiríksdóttur og Flórida eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur. Einnig eru Saga Ástu eftir Jón Kalman Stefánsson og Handbók um minni og gleymsku eftir Ragnar Helga Ólafsson tilnefndar.

Í flokki barna- og ungmennabókmennta sátu í dómnefnd Sigurjón Kjartansson (formaður), Hildigunnur Sverrisdóttir og Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir. Verkin sem þau tilnefna eftir konur eru Vertu ósýnilegur: Flóttasaga Ishmaels eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur, Skrímsli í vanda eftir Áslaugu Jónsdóttur, Rakel Helmsdal og Kalle Güettler, Er ekki allt í lagi með þig? eftir Elísu Jóhannsdóttur og Fuglar sem Rán Flygenring myndskreytir. Texti Fugla er eftir Hjörleif Hjartarson og einnig er Þitt eigið ævintýri eftir Ævar Þór Benediktsson tilnefnd.

Myndirnar eru sóttar í myndasafn Skáld.is nema myndin af Kristínu Eiríksdóttur sem er sótt á smasaga.is, myndin af Áslaugu Jónsdóttur er sótt á síðu Miðstöðvar íslenskra bókmennta og myndin af Bergþóru Snæbjörnsdóttur er sótt á vef mbl.is.