SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir 6. október 2020

Blekfjelagið gefur út þrjú ný ljóðverk

Útgáfuhóf – Blekfjelagið gefur út þrjú ný ljóðverk 22. október 2020

Þrjár skáldkonur gefa út ljóðabækur í samstarfi við Blekfjelagið; Stefanía dóttir Páls, Sigrún Björnsdóttir og Rebekka Sif Stefánsdóttir.

Stefanía, Sigrún og Rebekka Sif

Ljóðverkin Blýhjarta eftir Stefaníu, Loftskeyti eftir Sigrúnu og Jarðvegur eftir Rebekku Sif eiga sér hvert og eitt sína einstöku sköpunarsögu sem lauk á þessu ári í meistaranámi í ritlist við HÍ.

Blýhjarta er fyrsta ljóðverk Stefaníu dóttur Páls (f. 1990) og fjallar um konubarnið, tilraunir þess til að frelsast undan sjálfu sér og útsýnið á leiðinni. Áður hafa ritverk og þýðingar eftir hana birst í tímaritum, safnbókum og leikhúsi. Hún vinnur gjarnan þvert á miðla og stundar nú nám í tónsmíðum við Listaháskóla Íslands.

Loftskeyti er fjórða ljóðabók Sigrúnar Björnsdóttur (f. 1956) en áður hafa komið út eftir hana bækurnar Næturfæðing (2002), Blóðeyjar (2007) og Höfuðbending (2014). Í Loftskeytum skoðar hún mörk merkingar, dulmálslykla og áhrif skeytasendinga í fortíð og nútíð, áhrif sem verða kannski aldrei skilin til fulls.

Jarðvegur er fyrsta ljóðabók Rebekku Sifjar (f. 1992). Verkið er samfelld frásögn þar sem tekist er á við erfið málefni, sorg, missi og sársauka. Áður hafa sögur eftir hana birst í smásagnasafninu Möndulhalla og öðrum safnritum Blekfjelagsins en Rebekka starfar einnig sem söngkona og lagahöfundur.

Verið hjartanlega velkomin í Gröndalshús fimmtudagskvöldið 22. október klukkan 20:00. Þar verður lesið upp úr ljóðverkunum, framdir listrænir gjörningar, sungið, leikið og drukkið. Allar bækurnar verða til sölu á kostakjörum, saman og sitt í hvoru lagi.

Viðburðinum verður streymt, nánari upplýsingar munu birtast á facebook síðu viðburðarins þegar nær dregur.