Elísabet Gunnarsdóttir og Hildur Hákonardóttir tilnefndar til Íslensku þýðingarverðlaunanna fyrir Wa
Elísabet Gunnarsdóttir og Hildur Hákonardóttir voru meðal þeirra sem voru tilnefndir til Íslensku þýðingarverðlaunanna í ár, fyrir þýðingu sína á hinu klassíska verki Walden eða, Lífið í skóginum eftir bandaríska náttúruheimspekinginn Henry David Thoreau sem bókaútgáfan Dimma gefur út. Í Walden lýsir Thoreau reynslu sinni af einföldu lífi í faðmi náttúrunnar og tekur mið af árstíðunum í lýsingu sinni á mannlegum þroska. Hér er ofið saman minningum og andlegri leit og lengi hefur verið litið á verkið sem lykilverk á sviði náttúruheimspeki og náttúruverndarbókmennta.
„Þar sem ég bjó og það sem ég lifði fyrir“ Haustið 2011 hélt Hildur Hákonardóttir sýningu í Listasafni ASÍ undir yfirskriftinni „Þar sem ég bjó og það sem ég lifði fyrir“ en það er heitið á öðrum kafla bókar Thoreau. Sýningin var tileinkuð Thoreau og hugmyndafræði hans. Í tengslum við sýninguna var haldið málþing þar sem þær Hildur og Elísabet ræddu um þýðinguna sem þær voru þá að vinna að. Íslenska þýðingin hefur auk frumtextans að geyma teikningar eftir Hildi og eftirmála eftir þýðendurna.
Eitt af höfuðverkum bandarískra bókmennta Um þýðingu Elísabetar og Hildar á Walden segir í umsögn dómnefndar: „Walden er eitt af höfuðverkum bandarískra bókmennta og segja má að hún marki upphafsspor í vestrænni hugsun um náttúruvernd og samband manns og náttúru. Samvinnuþýðing Elísabetar Gunnarsdóttur og Hildar Hákonardóttur er ákaflega vel heppnuð og fangar 19. aldar stemningu og tærleika þessa klassíska texta á sérlega vandaðri íslensku án þess að vera gamaldags. Eftirmálar og skýringar þýðenda bera vott um ígrundaða vinnu og teikningar Hildar gefa bókinni aukið gildi. Að auki má taka fram að bókin er mjög fallegur prentgripur.“