SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir23. október 2020

Skáld dagsins

 

Arndís Þórarinsdóttir er skáld dagsins og er nú komin í skáldatalið okkar. Arndís gaf út sína fyrstu ljóðabók, Innræti, nýverið en áður hefur hún öðlast miklar vinsældir sem höfundur barna- og unglingabók, auk þess sem hún hefur birt lunknar smásögur í Tímariti Máls og menningar og víðar.

Skáld.is mun fjalla um ljóðabók Arndísar bráðlega, en hér má fá forsmekkinn af Innræti Arndísar:

 

 

TAUMHALD

 

Ég er alltaf bara einu súkkulaðistykki frá sérverslunum fyrir þéttvaxna

Einu vínglasi frá vasapela sem ég fel ofan í klósettkassanum

Einum veikindadegi

þar sem ég hefði kannski alveg getað drifið mig út

frá því að falla í fang þunglyndisins

iðjuleysisins

og tilgangsleysisins

 

Ég er einu glaðlegu blikki til vinnufélaga frá því

að eyðileggja allt

sem við eigum saman

 

Sumir lifa í öfundsverðri sannfæringu

um eigin óskeikulleika

 

Ég bíð þess

að hömlurnar bresti