SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir29. október 2020

Sjálfsmyndasafn Ingibjargar

Ingibjörg Sigurðardóttir, bókmennta-fræðingur og íslenskukennari við háskólann á Akureyri, hefur sent frá sér bókina Sjálf í sviðsljósi. Í bókinni freistar Ingibjörg þess að bregða upp myndum af ömmu sinni, Ingibjörgu Steinsdóttur (1903-1965), sem var litríkur persónuleiki og fékkst við margt á sinni ævi, en var kannski þekktust sem leikkona.

Ingibjörg hitti aldrei ömmu sína, sem hún var skírð í höfuðið á, en ólst upp við ótal frásagnir af uppátækum hennar. Í bókinni leitast Ingibjörg við að kynnast ömmu sinni með því að rýna í allar tiltækar heimildir, skriflegar og munnlegar, opinberar og einkalegar, og byggir smám saman upp það sem hún kallar "sjálfsmyndasafn" ömmu sinnar. Úr verður athyglisvert og fjölbreytilegt myndasafn sem framkallar skýra mynd af sterkri konu sem fór sínar eigin leiðir í lífinu, vakti umtal og deilur, jafnt utan og innan fjölskyldu sinnar.

Bókin er gefin út í hinni áhugaverðu ritröð: Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar. Í kynningu Háskólaútgáfunnar segir um bókina:

Ingibjörg Steinsdóttir er ekki hér. Hún er ekki lengur til sem lifandi vera en minjar um ævi hennar liggja hins vegar eins og reki í margs konar ,,textum". Sögur af Ingibjörgu hafa verið skrifaðar og endurskrifaðar, sagðar og endursagðar, lesnar og túlkaðar á margvíslegan hátt. Dótturdóttir og nafna Ingibjargar hitti ömmu sína aldrei í lifanda lífi en ólst upp við litríkar sögur af henni og stöðugan samanburð, bæði undir jákvæðum og neikvæðum formerkjum. Í þessari bók freistar höfundur þess að komast að því hver Ingibjörg Steinsdóttir var en jafnframt að gefa henni rödd í sögunni.