SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir 6. nóvember 2020

UNDRAHEIMUR BÓKMENNTANNA LOFSUNGINN

Bergrún Íris Sævarsdóttir hefur sent frá sér barnabókina Töfralandið sem er ætluð yngstu njótendum bóka. Í meitluðum ljóðrænum texta sem rímar og skemmtilegum myndum ferðumst við með litlum dreng um undraheiminn sem bækurnar geta opnað öllum sem nálgast þær með opnum huga:

Ég ferðast án vængja, án masturs og vinda. / Við raunveruleikann mig ekkert mun binda.

Í lofsöng sínum um heim barnabókanna vínkar Bergrún Íris til ýmissa forvera sinna í hópi barnabókahöfunda og vísar til persóna úr bókum þeirra:

Í bókunum get ég gert allt sem ég vil, / óhræddur flýg yfir gríðarstórt gil!

Hleyp um með Ronju og borða með Birki, /geng svo á höndum að voldugu virki.

Hitti Línu og Níels, Emil og Skunda / sé fiska með fjaðrir og doppótta hunda.

Kynnist Fíusól, Stellu og Málfríðarmömmu, / hitti álfa og tröll með óþekkri ömmu.

Tilvalið er að fara í ferðalag um Töfralandið með börnum sem eru að byrja að kynnast bókum, sem og þeim sem þegar kannast vel við sig í því landi og hafa gaman af því að hitta hér fyrir kæra vini úr öðrum bókum. Myndir Bergrúnar Írisar gleðja líka augað og styðja við meitlaðan textann. Töfralandið er um ást á bókum enda veit höfundurinn (og litli drengurinn, sögumaðurinn) að bækur geyma það besta / og þú sérð það líka, um leið og þú lest það.