Barnapían pönkarinn og Jólin
Gerður Kristný er einn af okkar þekktustu höfundum. Hún er jafnvíg á ljóð og sögur, bæði fyrir börn og fullorðna, og hefur hún hlotið fjölda verðlauna fyrir verk sín.
Að þessu sinni sendir Gerður Kristný frá sér tvær bækur, önnur frumsamin og hin þýðing.
Önnur bókin er barnabókin Iðunn og afi pönk, prýdd myndum Halldórs Baldurssonar. Á vef Forlagsins segir um söguna:
Þegar hjólið hennar Iðunnar hverfur kemur bara eitt til greina – systurnar í Súluhöfða hljóta að hafa tekið það. Þá er verst að mamma og pabbi eru farin í ferðalag og barnapían afi pönk hugsar meira um lúsmý og eldgamlar hljómsveitir en tapað hjól. Iðunn og afi pönk er stórskemmtileg saga um flókna ráðgátu og öll vandræðin sem gamlir pönkarar geta þvælt sér í.
Hin bókin er þýðing á endursögn Ceciliu Davidsson og Alex Haridi á sögu Tove Jansson: Jól í Múmíndal. Filippa Widlund sá um myndskreytingar. Kynning á bókinni á Forlagsvefnum segir:
Jólin eru að koma og hér liggið þið bara hrjótandi! Það gengur ekki! Einn bjartan desembermorgun brýtur geðstirður hemúll sér leið inn til múmínfjölskyldunnar og vekur hana af vetrardvala. Múmíndalurinn er gjörbreyttur, undarleg hvít og ísköld bómull þekur allt og fillífjonkur og kríli þeysast um með mat, grenitré og kerti. Allir eru að búa sig undir þetta skelfilega sem er á leiðinni, þetta sem kallast Jólin. Sígildar söguperlur fyrir nýja kynslóð múmínálfaaðdáenda