Konur sópa til sín Bókmenntaverðlaunum starfsfólks bókaverslana
Slitförin og Vertu ósýnilegur: flóttasaga Ishmael eru á meðal bestu bóka ársins að mati bóksala og starfsfólks bókaverslana.
Slitförin er eftir Fríðu Ísberg og varð fyrir valinu sem besta ljóðabók ársins og Vertu ósýnilegur: flóttasaga Ishmael er eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur og var hún valin besta unglingabókin. Auk þessa er besta íslenska barnabókin myndskreytt af Rán Flygenring en það er bókin Fuglar eftir Hjörleif Hjartarson.
Einnig voru tvær bestu skáldsögur í íslenskri þýðingu íslenskaðar af konum; Grænmetisætan eftir Han Kan í þýðingu Ingunnar Snædal og Veisla í greninu eftir Juan Pablo Villalobos í þýðingu Maríu Ránar Guðjónsdóttur. Ennfremur var besta barnabókin í íslenskri þýðingu Kvöldsögur fyrir uppreisnargjarnar stelpur eftir Elenu Favilli og Francescu Cavallo íslenskuð af Magneu J. Matthíasdóttur.
Loks var besta fræðibókin Leitin að klaustrunum – klausturhald á Íslandi í fimm aldir eftir Steinunni Kristjánsdóttur.
Aðrar bækur sem hlutu Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana voru eftirfarandi: Besta íslenska skáldasagan er Saga Ástu eftir Jón Kalman Stefánsson; besta ævisagan er Helgi - minningar Helga Tómassonar eftir Þorvald Kristinsson og fyrrnefnd íslenska barnabók sem bar af er Fuglar eftir Hjörleif Hjartarson.
Skáld.is óskar öllum þessum flottu konum til hamingju!