Til hamingju, Gerður Kristný!
Gerður Kristný rithöfundur og skáld, hlaut í gær - á degi íslenskrar tungu - Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar, en þau þykja ein mestu heiðursverðlaun sem bjóðast á sviði íslenskrar tungu og bókmennta.
Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar hafa verið veitt frá árinu 1996 og er Gerður Kristný 25. handhafi þeirra.
Tilkynnt er árlega 16. nóvember, á afmælisdegi listaskáldsins góða, um verðlaunahafa og í reglum Mennta- og menningarmálaráðuneytis segir að þau séu veitt:
„einstaklingum er hafa með sérstökum hætti unnið íslenskri tungu gagn í ræðu eða riti, með skáldskap, fræðistörfum eða kennslu og stuðlað að eflingu hennar, framgangi eða miðlun til nýrrar kynslóðar.“
Í rökstuðningi ráðgjafanefndar menntamálaráðherra um verðlaunin segir meðal annars:
„… Við veitingu verðlaunanna að þessu sinni er tekið mið af fjölhæfni verðlaunahafans, en hún hefur skrifað fjölda bóka bæði fyrir börn og fullorðna, verk hennar hafa verið sett upp á leiksviði, ljóð hennar sungin auk þess sem hún hefur kennt í fjölmörgum ritsmiðjum fyrir börn. Rödd Gerðar Kristnýjar er mikilvæg í íslensku samfélagi ekki aðeins vegna þess hvernig hún segir hlutina heldur líka vegna alls þess sem hún hefur að segja.“
Skáld.is óskar Gerði Kristnýju hjartanlega til hamingju með verðskuldaða viðurkenningu og bendir á að hér á vefnum eru að finna ýmsar umfjallanir um bækur hennar, til að mynda þau sem sérstaklega eru nefnd í ofannefndum rökstuðningi.
Sjá um Myndina af pabba: Sögu Thelmu hér; um Blóðhófni hér; um Drápu hér; og um Sálumessu hér.