SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir19. nóvember 2020

Bergrún Íris sópar að sér verðlaunum

Í gær var tilkynnt að Vest-Norrænu barnabókaverðlaunin féllu að þessu sinni í skaut Bergrúnar Írisar Sævarsdóttur fyrir bókina Lang-elstur að eilífu (2019). Þetta er ekki fyrsta viðurkenningin sem Bergrún Íris hlýtur fyrir bókina því hún fékk einnig Íslensku bókmenntaverðlaunin í fyrra.

Vest-Norrænu barnabókaverðlaunin hafa verið veitt frá árinu 2002. Þau eru veitt annað hvert ár og er tilgangur þeirra að styðja við bókaútgáfu á Íslandi, í Færeyjum og á Grænlandi og hvetja rithöfunda til að skrifa fyrir börn. Fyrst til að hljóta verðlaunin voru Andri Snær Magnason (texti) og Áslaug Jónsdóttir (myndir og útlit) fyrir Bláa hnöttinn. Síðan hafa eftirtaldir höfundar verðlaunin: Kristín Steinsdóttir (texti) og Halla Sólveig Þorgeirsdóttir (myndir) fyrir Engil í Vesturbænum; Kristín Helga Gunnarsdóttir fyrir Draugaslóð, Gerður Kristný fyrir Garðinn og Andri Snær Magnason fyrir Tímakistuna.

Sá kostur fylgir tilnefningum til Vest-Norrænu barnabókaverðlaunanna að bækurnar eru þýdd á öll þrjú málin: Færeysku, grænlensku og íslensku og gefin út í löndunum þremur.

Skáld.is óskar Bergrúnu Írisi hjartanlega til hamingju með heiðurinn og verðlaunin, en hún hefur verið einkar fengsæl á verðlaunalendum; hefur einnig hlotið Fjöruverðlaunin - bókmenntaverðlaun kvenna, Barnabókmenntaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur og Viðurkenningu IBBY fyrir framlag til barnamenningar. Þá hafa verk hennar hlotið fleiri tilnefningar, til að mynda til Barna- og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs.

Myndin er tekin af facebook-síðu Bergrúnar Írisar.