SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir25. nóvember 2020

Grafið úr gleymsku

Hún var þekkt undir heitinu Skáld-Guðný á nítjándu öld, en hætt er við að fáir þekki til Guðnýjar Árnadóttur (1813-1897) í dag.

Nýverið hefur Félag ljóðaunnenda á Austurlandi gefið út ljóðabók með ljóðum, kvæðum og rímum eftir Guðnýju.

Titill bókarinnar er mjög skemmtilegur: Hugurinn einatt hleypur minn og er hann sóttur í fyrsta erindi ævikvæðis sem Guðný orti.

Mikill hluti af kvæðum Guðnýjar hefur varðveist í handriti sem skráð var í Hornafirði árið 1876 og er nú í Héraðs-skjalasafni Austfirðinga á Egilsstöðum. Þá hafa afkomendur Guðnýjar í Lóni og Hornafirði líka varðveitt kvæði eftir formóður sína.

Í ljóðabókinni birtist allt sem varðveist hefur af kveðskap Guðnýjar, auk þess sem ítarleg og áhugaverð ritgerð um æviferil Guðnýjar og kveðskap hennar fylgir. Höfundar ritgerðarinnar eru Helgi Hallgrímsson, náttúrufræðingur, og Rósa Þorsteinsdóttir, þjóðfræðingur við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Hér má hlýða á Rósu Þorsteinsdóttur, sem er félagi í Kvæðamannafélaginu Iðunni, kveða Músarímu eftir Skáld-Guðnýju.