Teiknað og skrifað af list
Útgáfa íslenskra barnabóka virðist blómlegri en nokkurn tíma og nýir höfundar sem skrifa fyrir börn eru sífellt að koma fram á sjónarsviðið. Nokkrir þeirra eru hvoru tveggja höfundar texta og mynda. Lengi vel ríkti Sigrún Eldjárn sem drottning yfir þessu sviði með dásamlegum teikningum sínum og sögum. En á undanförnum árum hafa komið fram fleiri konur sem eru gríðarlega öflugar á þessu sviði. Þar má til að mynda nefna Áslaugu Jónsdóttur, Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur, Lani Yamamoto, Kristínu Rögnu Gunnarsdóttur og Rán Flygenring.
Ein þeirra sem er að hasla sér völl á þessu sviði er Birta Þrastardóttir, en hún hefur sent frá sér tvær bækur með eigin myndum og eigin texta: SKÍNANDI (2015) og NÓRA (2020). Bækur Birtu eru báðar ætlaðar yngstu njótendum bóka, myndirnar eru í aðalhlutverki og texti stuttur.
Í kynningu á fyrri bókinni segir að Birta skapi þar "töfraheim þar sem daglegt líf venjulegrar fjölskyldu er í senn komið fyrir í skræpóttum stíl sjötta áratugarins og dularfullum afkimum þöglu kvikmynd-anna þar sem sirkuslistamenn og gráðugir bófar leika lausum hala og lokka til sín börn. Hin skínandi aðalsöguhetja stígur skyndilega fyrir tilverknað örlaganna út úr hlutverki sínu sem stelpa og verður undravera sem aðrir vilja hagnast á. Því það verður að vera spenna, annars er ekkert gaman, og ef allt fellur að lokum í ljúfa löð er það ekki endilega vegna þess að einhver góð lífsregla hefur sannað sig. Nei, stundum er það bara vegna þess að eitthvað hrökk upp úr manni."
Nýja bók Birtu, Nóra, segir frá samnefndri sögupersónu sem er slegin út af laginu við leiðinlega og ónærgætna athugasemd frá stóru krökkunum á skólalóðinni. Allt fer í baklás um tíma hjá Birtu en þegar hún hittir gamla leikskólavinkonu sína lagast skapið og lífið aftur. Þetta er ljúf saga sem börn geta áreiðanlega tengt vel við.
Það er áhugavert að hvor bók Birtu hefur sinn eigin stíl þótt einnig megi greina höfundareinkenni hennar á teikningunum.
Skáld.is óskar Birtu Þrastardóttur velgengni á þessu vaxandi sviði skemmti-legra myndabóka fyrir yngstu börnin.