SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir20. desember 2020

Gleði á jólum og gæfuríkt ár

Sæunn Freydís Grímsdóttir, myndlistarkona og hagyrðingur, orti eitt sinn jólabæn, sem vert er að birta á síðasta sunnudegi aðventu. Sæunn er fædd árið 1948 og uppalin í Saurbæ í Vatnsdal. Hún fluttist ung til Reykjavíkur en hefur búið í Hveragerði síðan 2004.

 

Jólabæn

 

Í bæinn ég skrapp aðeins, bara hér einhverju sinni

bjöllukór heyrði ég hljóma svo mikið þar inni

fann ég svo vini og fögnuður braust út hjá minni

flest gátum rifjað þar upp okkar áður fyrr kynni.

 

Hlýddum við saman á heillandi klukknanna hljóma

hreint tæpast okkur þar urðum til frekari sóma.

Gleymdum þá öllu því margt fyrrum sáum í ljóma

við flest mátti skemmta er okkar þar rétt bar á góma.

 

Við ung vorum fyrrum og allt gátum tekið með festu

ákveðin héldum og ótrauð á tindinn að mestu

klifum þar upp eins og ungviðið ætlar þá bestu

atkvæðastærstu en alls ekki leiðina verstu.

 

Liðu svo árin við leiki og hverskonar kynni

lifðum á vonum, og magnað var þá okkar sinni

draumunum fylgdum af dulinni spennu ei neinni

djörf reistum hallir í skýjum með voninni einni.

 

Nú dveljum hjá hveranna dulúðgu kröftum og bárum

dálítið líklegt að skrefum hér þyngi með árum.

Gleði á jólum og gæfuríks næsta árs óskum

að gefist oss öllum til lausnar frá þunga og tárum.