SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir20. desember 2020

Flottar stelpur og ferleg skessa

Hildur Loftsdóttir hefur nú sent frá sér barnabók númer tvö. Fyrri bókin sem kom út 2019, Eyðieyjan. Urr, öskur, fótur og fit, fjallaði um systurnar hressu, Ástu og Kötu. Þær eiga léttgöldróttan afa sem hefur tök á að senda þær á milli heima til að leysa þrautir og vandamál og þroskast í leiðinni.

Nýja bókin heitir Hellirinn, blóð, vopn og fussum fei. Í sögunni eru sterk ævintýra- og þjóðsagnaminni með skemmtilegri tengingu við nútímann, meðal annars ferleg skessa og enn hroðalegri bróðir hennar og kóngsríki í uppnámi. Það er mikið fjör í sögunni, blóð og hor gusast um blaðsíðurnar og spennan er gríðarleg.

Stíll Hildar er léttur og aðgengilegur, húmor og gleði einkenna báðar bækur hennar. Ekki síst er mikilvægt og frábært að fá þessar hugdjörfu og flottu stelpur sem láta til sín taka, sem aðalsöguhetjur og fyrirmyndir fyrir unga lesendur.

Í viðtali á Akureyri.net segir Hildur m.a.:

„Mig langaði að leggja mitt af mörkum til að auka áhuga barna á lestri og úrval íslenskra barnabóka. Bóka sem hægt væri að spegla sig í; íslensk börn í íslensku samfélagi og menningarheimi. Við fjölluðum um að börn kjósa að lesa bækur sem eru húmorískar og spennandi og þar sem auðvelt er að tengja við aðalsöguhetjurnar. Ég einsetti mér að fylgja þeirri forskrift, en mér var einnig umhugað um að hafa bækurnar á einföldu máli, svo þeim sem eiga erfiðar með lestur, eða eiga jafnvel foreldra af erlendum uppruna, fallist ekki hendur og gefist upp í fyrsta kafla. Það skiptir gríðarlega miklu máli að öll börn geti fundið lesefni við sitt hæfi.”

Hellirinn er ekki síður spennandi lesning en Eyðieyjan sem uppseld er fyrir löngu.