Jóna Guðbjörg Torfadóttir∙25. desember 2020
Ljóð jóladags er Jólatré
Það er við hæfi að birta jólaljóð á jóladegi. Kristín Ómarsdóttir sendi frá sér ljóðabókina Jólaljóð árið 2006 sem er endurprentuð í Ljóðasafni hennar sem kom út fyrr á árinu. Eitt ljóðanna er bæði jólalegt að efni og formi, það er svona:
Jólatré
Á
jólatrénu
hanga glerkúlur,
brothættar tyggjó-
kúlur og englar fljúga í
kringum tréð hring eftir hring.
En þeir sofna um leið og við lokum
augunum. Nóg að blikka auga og þeir
dotta, fá sér stuttan lúr. Kertaljósin loga glatt.
Undir trénu hvíla inniskór, greiða, munnharpa.
spegill, varalitur, leikfangahestur, hálsmen,
hanskar, brúða sem geymir bleiu, snuð og náttkjólinn
sinn í poka. Hún fær að sofa við vanga stúlkunnar
í
nótt.