SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir18. janúar 2018

Kona á skjön - sýning um ævi og störf Guðrúnar frá Lundi

Á laugardaginn, 20. janúar, opnar sýning um ævi og störf Guðrúnar frá Lundi í Borgarbókasafni Reykjavíkur - Menningarhúsi Grófinni, Tryggvagötu 15. Viðburðurinn hefst kl. 14 og lýkur kl. 16 en sýningin stendur fram til 4. mars.

Sýningarhöfundar eru Kristín Sigurrós Einarsdóttir, leiðsögumaður og kennari, og Marín Guðrún Hrafnsdóttir bókmenntafræðingur og langömmubarn Guðrúnar. Titill sýningar er sóttur í lokaverkefni Marínar sem snýst öðrum þræði um að miðla merkum rithöfundaferli Guðrúnar með sýningu sem geymir upplýsingar um ævi hennar og verk á textaspjöldum í bland við persónulega muni.

Marín rekur feril Guðrúnar sem hún líkir við öskubuskuævintýri þar sem þessi alþýðukona úr Skagafirði verður metsöluhöfundur nánast á einni nóttu. Guðrún er orðin rétt tæplega sextug þegar fyrsta bókin kemur út en hún nær samt að skrifa 27 bækur áður en yfir lýkur. Á þessum tíma eru kvenrithöfundar afar fáir á mjög karllægum ritvelli og voru verk Guðrúnar lengi vel flokkuð sem ómerkileg afþreying og kerlingabókmenntir. Frekari upplýsingar um Guðrúnu frá Lundi má nálgast í Skáldatalinu og lokaverkefni Marínar í Skemmunni.