Elísabet fær árslaun
Elísabet Kristín Jökulsdóttir hlýtur árslaun úr launasjóði rithöfunda í ár og því ber að fagna. Þetta er í fyrsta sinn á rúmlega þriggja áratuga ferli Elísabetar sem rithöfundur sem hún fær úthlutað rithöfundarlaunum í 12 mánuði.
Það kemur ekki á óvart að þessi heiður falli Elísabetu í skaut núna, því hún hefur verið á mikilli siglingu sem höfundur undanfarin ár og sent frá sér bækur sem hafa aflað henni verðlauna og tilnefninga til enn fleiri verðlauna.
Nýjasta skáldsaga Elísabetar Aprílsólarkuldi (2020) hlaut tilnefningu til bæði Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Fjöruverðlaunanna, en ekki hefur enn verið tilkynnt hvaða verk bera þar sigur úr býtum.
Ljóðabók Elísabetar Ástin ein taugahrúga: Enginn dans við Ufsaklett (2014) hlaut Fjöruverðlaunin og var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, auk þess sem hún var tilnefnd til Menningarverðlauna DV.
Fjöruverðlaunin hlaut Elísabet einnig árið 2008 fyrir skáldævisöguna Heilræði lásasmiðsins (2007) og 2018 hlaut hún viðurkenningu úr Rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins.
Skáld.is óskar Elísabetu Kristínu Jökulsdóttur hjartanlega til hamingju með árslaunin og vonar að þau skapi henni svigrúm til að skrifa og skrifa og skrifa og halda áfram að auðga íslenskar samtímabókmenntir með sem sínum einstæðu sögum og ljóðum.