SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn27. janúar 2021

ÁVARP ELÍSABETAR

Elísabet Jökulsdóttir hélt frábært ávarp þegar hún tók við Íslensku bókmenntaverðlaunum fyrir skáldsögu sína Aprílsólarkulda í gærkvöldi. Hún var svo væn að leyfa okkur að birta það hér.

Kæru forsetahjón, Guðni og Elíza, formaður dómnefndar, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda, Hólmfríður Matthíasdóttir útgefandi Forlagsins, fjölskylda mín, þið sem eruð að horfa í sjónvarpinu og framliðnir forfeður mínir. Ég tileinka þessi verðlaun aðstandendum þeirra sem veikst hafa á geði.

Eitt helsta ráð mitt við kvíðanum sem hefur hrjáð mig síðasta ár er að gera bara einn hlut á dag. Þess vegna geri ég ekki meira þennan daginn en að taka á móti Íslensku bókmenntaverðlaununum.

Það er til sjaldgæfur sjúkdómur sem birtist þannig að sjúklingurinn veit ekki hvort hann er að dreyma eða hvort atburðirnir eru að gerast í alvörunni. Þannig líður mér núna. Þess má geta að Kolbrá systur mína dreymdi fyrir tveimur vikum Eirík Guðmundsson þarsem hann tilkynnti í útvarpi allra landsmanna: Elísabet er á leið á Bessastaði. Síðan kom að mér í draumnum að velja mér kjól, mátaði ég þá tólf kjóla en valdi að endingu þann þrettánda sem var í stíl við Önnu Kareninu.

Sem kallast á við það að næst langar mig að skrifa rússneska skáldsögu. Það byrjaði þannig að ég lagðist uppí rúmið eitt kvöldið og þótti mér þá að þriggja metra langur björn legðist við hliðina á mér. Þetta gerðist næsta kvöld, að björninn lagðist við hlið mér. Þegar hann kom þriðja kvöldið og lagðist við hliðina á mér í rúminu spurði ég hann að nafni og hann svaraði: Very long story.

Svona er sköpunin, maður veit ekki alltaf hvað er draumur og hvað veruleiki. Þetta er að minnsta kosti alveg satt.

Sjálfa dreymdi mig að ég var komin inní eldhús á Bessastöðum og hékk þar við eldhúsborðið. Eldhúsborð eru í mínum huga mesti galdrastaðurinn. En það er ekki tilviljun að ég minnist hér á drauma. Ef ég ynni einhverntíma Nóbelsverðlaunin væri það fyrir allar litlu stúlkurnar sem ættu sér þann draum.

Ég var búin að skrifa ritdómana löngu áður en Aprílsólarkuldi kom út. Þar stóð: Elísabet hefur verið á miklu flugi undanfarin ár en hér fatast henni flugið ... En hér stend ég og ekki aðeins dómarnir hafa verið á besta veg heldur líka umsagnir frá almennum lesendum.

Og verðlaun. Það eru til dæmis verðlaun þegar ég hringi í son minn og eftir að hafa óskað mér til hamingju segir hann: Mamma, þetta er fyrir alla skurðina sem þú ert búin að grafa!

Skurðina?

Já, þú sagðir okkur alltaf að það að skrifa væri einsog að grafa skurð.

Börnin fengu ekki nesti í skólann því ég var að grafa skurði.

Annar sonur minn er að skrifa handrit um það hvernig er að vera aðstandandi þess sem þjáist af geðhvörfum. Þar kemur í ljós að barnið / unglingurinn þjáist jafn mikið ef ekki meira, sá geðveiki hefur að minnsta kosti geðsjúkdóminn til að hverfa inní. Sonur minn sýndi mér handritið og mér leist ekkert á það. Ég sagði við hann: Þetta er vel skrifað en þetta var ekki svona. Það kom vel á vondan, því ég hafði verið að skrifa mína sögu alla ævi. Þá gerði ég þá sjálfsögðu uppgötvun að þetta væri hans saga og hann varð að segja sína sögu.

Til hvers verður maður að segja söguna sína? Að leyfa ekki öðrum að segja sína sögu eru ein af helstu aðferðum feðraveldisins til að þagga niður í okkur. Hrein og klár forneskja.

Forneskjan er algjörlega vanmetin en hún þýtur í blóði okkar.

Að leyfa heiminum ekki að þróast áfram, leyfa okkur ekki að ná sambandi við hvert annað og verða einmanaleikanum að bráð. Einmanaleikinn er orðinn faraldur.

Ungt fólk þaggar niðrí gömlu fólki og gamalt fólk niðrí ungu fólki, karlar og konur hvert niðrí öðru, já kynslóðirnar þagga hver niðrí annarri, heilu þjóðirnar þagga niðrí hver annarri, heilu þjóðirnar þagga niðrí þjóðarbrotunum.

Þessvegna er það mikilvægt fyrir mig að vera verðlaunuð fyrir að segja söguna mína hér!

Það var ekki sjálfsagt á þeim tíma sem það gerðist. Það hefði verið ómögulegt árið 1978.

Eftir veikindin 1978 tók við botnlaust hyldýpi af skömm og ótta. Mér fannst ég útskúfuð.

Það er spurning hvernig þetta breytist? Bækur Vigdísar Grímsdóttur. Englar alheimsins, og afhverju skrifar Einar Már um bróður sinn, kannski urðu ljóð og myndir bróður hans kveikjan að verkinu. Það varð hallarbylting í Geðhjálp þegar við sem höfum glímt við geðsjúkdóma tókum völdin og komum á nýrri stjórn. Ómæld eru svo svokölluð sjálfshjálparviðtöl í blöðum og tímaritum sem hjálpa og eru skref í áttina en merkilegt nokk, fólk er stundum skammað fyrir að opna sig í fjölmiðlum.

Sagan hefur lækningamátt og þess vegna er stundum lífsnauðsynlegt að við segjum söguna okkar.

Saga hvers og eins er sérstök af því við erum sérstök.

Í framhaldi af því vil ég minna á orð níu ára ömmustelpunnar minnar, hennar Lillýjar, sem sagði: Sá sem er ekki sérstakur – og líka sá sem er ekki skrýtinn – hann ætti að leita læknis.

Að lokum langar mig að ávarpa aðstandendur þeirra sem veikjast á geði. Það er kominn tími til að aðstandendur fái sviðið. Leiksviðið. Hvíta tjaldið.

Og það er eitt í viðbót já. Húmorinn. Þegar ég byrjaði að skrifa um mína geðveiki hringdi ég í mömmu og spurði hvort hún vildi lesa yfir það sem ég hafði skrifað.

Hún svaraði: Ekkert mál en taktu lýsisflöskuna með þér!!

Takk fyrir.