SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir29. janúar 2021

Sigríður Jónsdóttir komin í skáldatalið

2011 kom út ljóðabók í mjög litlu broti sem vakti feikilega athygli. Titlinn bókarinnar er Kanill: ævintýri og örfá ljóð um kynlíf. Það voru ekki síst hin örfáu ljóð um kynlíf sem heilluðu lesendur, enda er þar ort tæpitungulaust og fallega um þessa iðju sem flestir stunda af kappi (a.m.k. einhvern tíma á æviskeiðinu) en tjá sig sjaldan um.

Sigríður lýsti þessum ljóðum sem "antíklámi": „Ég er mjög frábitin klámi og er eiginlega í herferð gegn því. Þessi bók er fyrst og fremst óður til kynlífs og ástarinnar; kynæxlunin er samofin sögu lífs á jörðinni og þetta er elsta söguefni í heimi."

Fyrsta ljóð bókarinnar dregur fram þetta þema og útskýrir um leið bókartitilinn:

Kanillinn er kynlíf sykurinn er ástin grauturinn og mjólkin eru lífið bæði þykkt og þunnt. Við höfum ekkert að gera við kanil eintóman en hin efnin geta öll nýst án hans. Þó eigum við kanil einan á bauk að grípa í til bragðbætis. Þessi kanill verður blandaður sykri. Þannig er hann bestur.

Við bjóðum Sigríði Jónsdóttur velkomna í skáldatalið.