SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir 5. febrúar 2021

Eigulegt og glæsilegt verk

KONUR SEM KJÓSA: Aldar__saga er mikil og glæsileg bók sem kom út síðastliðið haust hjá Sögufélaginu. Höfundar eru fjórir sagnfræðingar: Erla Hulda Halldórsdóttir, Kristín Svava Tómasdóttir, Ragnheiður Kristjánsdóttir og Þorgerður H. Þorvaldsdóttir. Sú síðastnefnda lést á árinu eftir erfið veikindi og sá því miður ekki bókina í efnislegu formi en hönnun hennar er mjög óvenjuleg og glæsileg, eins og áður sagði. Bókin er í óvenjulega stóru broti, eldrauð að ytra byrði og skreytt mörgum rauðum innsíðum líka. Hún telur 783 blaðsíður, er ríkulega myndskreytt með mismunandi uppsetningu texta og leturs, sem einnig er í mismunandi litum. Hönnuðir bókarinnar eru Snæfríð Þorsteins og Hildigunnur Gunnarsdóttir og um myndritstjórn sá Karólína Stefánsdóttir. Verkið er kostað af Alþingi og skipuð var ritstjórn sem í sátu Auður Styrkársdóttir, Kristín Ástgeirsdóttir og Sumarliði R. Ísleifsson, og ritstjóri er Helga Jóna Eiríksdóttir. Það eru því fjölmargir sem koma að bókinni og geta litið stoltir á verkið.

Við fyrstu sýn kann þessi hnullungur að virðast óárennilegur en sá sem opnar bókina og byrjar að lesa kemst fljótt að því að svo er ekki. Strax kemur í ljós að bókin er skrifuð á mjög aðgengilegu og lipurlegu máli. Eins og hæfir hefst fyrsti kaflinn á lýsingu á hátíðarhöldum íslenskra kvenna 7. júlí 1915, það er "þingsetningardagur, og íslenskar konur fagna nýfengnum kosningarétti og kjörgengi með ræðum og þakkarávörpum, söng og húrrahrópum" (17). Síðan er farið yfir aldarsöguna frá því að kosningarétturinn var í höfn (reyndar takmarkaður við 40 ára aldur) og raktar helstu vörður í jafnréttisátt, allt fram til ársins 2015, þegar konur fögnuðu 100 ára kosningarétti. Fjallað er um mörg svið sem tengjast konum og réttindabaráttu þeirra, jafnt á sviði einkalífs sem opinbers lífs. Persónusögur fleyga hina opinberu sögu, sem gerir lesturinn áhugaverðari en ella.

Hér verður efni bókarinnar ekki rakið frekar en þess ber að geta að hvergi er slegið af fræðilegu og gagnrýnu sjónarhorni sagnfræðinganna sem skrifa verkið. Það er skýrt dregið fram að víða er pottur brotinn í jafnréttismálum þó að goðsögnin "um að fegurstu, frjálsustu og sjálfstæðustu konurnar sé að finna á Íslandi [sé] aldrei langt undan og því [sé] jafnvel gefið undir fótinn að hér sé um að ræða náttúru- og/eða eðliseinkenni sem rekja megi aftur til kvenhetja miðalda og tengist hreinleika íslenskrar náttúru" (703).

KONUR SEM KJÓSA er mjög áhugaverð og eiguleg bók og klisjan "ætti að vera til á hverju heimili" á svo sannarlega við hér.