SETTU VERÐUGT FORDÆMI FYRIR NÚTÍMAKONUR
Seinna bindið um biskupsfrúr á Íslandi eftir Hildi Hákonardóttur er komið út. Í bindunum tveimur er rakin saga íslenskra frúa og fyrirkvenna frá 1510 - 1623.
Steinunn Inga fjallaði um fyrra bindið á skáld.is í grein sem hún nefndi; Vel þekkt, meinlaus dýrategund. Þar kemur m.a. fram að biskupsfrúrnar voru friðlausar, sóttu að Hildi af miklum krafti, vöktu hana á morgnana, setttust að í huga hennar og neituðu að láta hana í friði fyrr en hún hefði komið sögu þeirra á blað.
Í seinna bindinu kemur sitthvað fleira merkilegt fram, m.a. að nær allar biskupsfrúr eftir aldamótin 1600 eru frænkur. Í viðtali í Mbl. 6. febrúar, segir Hildur Hákonardóttur, höfundur bókarinnar m.a.:
„Mér finnst skipta máli að við þekkjum þessar konur og það má spyrja sig hvort þær, með fagmennsku sinni, hafi sett verðugt fordæmi fyrir nútímakonur sem nú eru að taka við embættum og orðnar ráðandi í samfélaginu.“
Einnig segir Hildur í viðtalinu „...að konurnar hafi, sökum frændsemi sinnar þekkt vel til starfsins og sögu embættisins, og þeim verið það sameiginlegt að skipta sér ekki af embættisgerðum né heldur sýndu þær áberandi trúrækni. „Þó fann ég dæmi um biskupsfrú sem fékk biskup til að breyta hegðun sinni. Það var út af skólapilti, en hún vissi að biskup hafði sýnt honum ósanngirni. Áhrifum frúnna í samfélaginu gætir líklega helst í því að þær sýna fagmennsku og jafnaðargeð. Þær misstu sig aldrei eða sóttust eftir sviðsljósinu heldur. Að skandalísera var ekki til hjá þeim, og mér finnst þær hafi verið fremur góðlyndar og mennskar. Til eru sögur um að þær hafi sýnt aðhald þegar kom að búrekstrinum sem var á þeirra könnu, en hart var sótt að biskupsstólunum af beiningafólki því örbirgð í landinu var skelfileg og skipulögð fátækrahjálp engin.“
Í júlí 2020 birtist skemmtilegt viðtal við Hildi á skáld.is þar sem hún segir m.a. frá vinnubrögðum sínum, tilurð bókanna og þýðingu sinni á H. D. Thoreau; Eins og huldukonur í sögu þjóðarinnar.