SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir 1. febrúar 2018

Konur hrepptu Íslensku bókmenntaverðlaunin

Áslaug Jónsdóttir, Kristín Eiríksdóttir og Unnur Jökulsdóttir hrepptu Íslensku bókmenntaverðlaunin í ár. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti verðlaunin síðastliðinn þriðjudag við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Í dómnefnd voru Gísli Sigurðsson, formaður nefndar, Helga Ferdinandsdóttir, Hulda Proppé og Sigurjón Kjartansson.

Áslaug Jónsdóttir hlaut, ásamt, Rakel Helmsdal og Kalle Güettler, verðlaun í flokki barna- og ungmennabóka fyrir bókina Skrímsli í vanda.

Litla skrímslið og stóra skrímslið eru orðin flestum Íslendingum vel kunn; sögurnar eru orðnar níu talsins auk þess sem skrímslin hafa ratað á fjalir Þjóðleikhússins. Bækurnar eru unnar í samstarfi Áslaugar Jónsdóttur, texta- og myndahöfundar, við Rakel Helmsdal, textahöfund í Færeyjum og Kalle Güettler, textahöfund í Svíþjóð. Þau semja textana í sameiningu og jafnhliða á íslensku, sænsku og færeysku. Áslaug sér einnig um myndrænu frásögnina auk þess sem hún myndlýsir, hannar útlit bókanna og brýtur um textann. Áslaug hefur áður hlotið verðlaun og viðurkenningar fyrir skrímslin sín en í umsögn dómnefndar um Skrímsli í vanda segir að bókin sé fallegt verk og að umfjöllunarefnið snerti alla inn að kviku.

Hér má hlusta á þakkarræðu Áslaugar Jónsdóttur

Myndin af Áslaugu er sótt á vefsíðu RÚV.

Kristín Eiríksdóttir hlaut verðlaun í flokki fagurbókmennta fyrir skáldsöguna Elín, ýmislegt.

Elín, ýmislegt er önnur skáldsaga Kristínar en hún hefur einnig skrifað ljóð, leikrit og smásögur ásamt því að fást við þýðingar. Fyrri skáldsaga Kristínar, Hvítfeld - fjölskyldusaga, var tilnefnd til Fjöruverðlauna árið 2013 og í ár hreppti Elín, ýmislegt Fjöruverðlaunin. Dómnefnd Fjöruverðlauna segir m.a. að sagan sé gríðarlega vel skrifuð, úthugsuð, næm og áhrifarík. Umsögn dómnefndar Íslensku bókmenntaverðlaunanna er á sömu lund en þar segir m.a. að Kristín tefli „fínlega saman ólíkri veruleikaskynjun persónanna í áhrifaríkri frásögn af hverfulu eðli minninga.“

Hér má hlusta á þakkarræðu Kristínar Eiríksdóttur

Myndin af Kristínu er sótt á vefsíðu Stundarinnar.

Unnur Jökulsdóttir hlaut verðlaun í flokki fræðirita og bóka almenns eðlis fyrir bókina Undur Mývatns: um fugla, flugur, fiska og fólk.

Náttúran hefur lengi verið Unni hugleikin og hefur hún skrifað þó nokkrar bækur þar sem hún kemur við sögu, þ.á.m. Kjölfar Kríunnar (1989) og Kría siglir um Suðurhöf (1993). Undur Mývatns: um fugla, flugur, fiska og fólk hlaut einnig Fjöruverðlaunin í ár en dómnefndin komst m.a. þannig að orði að skynja megi djúpa virðingu Unnar fyrir náttúrunni og að hún vekji lesandann til umhugsunar um tengsl manns og náttúru. Í dómnum er einnig komist svo að orði að bókin sé jafn dýrmæt perla og Mývatn. Í umsögn dómnefndar Íslensku bókmenntaverðlaunanna segir að bókin sé einstakt listaverk sem miðli fræðilegri þekkingu samfara persónulegri sýn á það sem fyrir augu ber í náttúrunni. Bókin er prýdd vatnslitamyndum eftir Árna Einarsson og Margaret Davies.

Hér má hlusta á þakkarræðu Unnar Jökulsdóttur

Myndin af Unni er sótt á vefsíðu Borgarbókasafns.

Hér má horfa á beina útsendingu frá afhendingu verðlaunanna á Bessastöðum