GUÐRÚN EVA TILNEFND TIL BÓKMENNTAVERÐLAUNA NORÐURLANDARÁÐS
Í dag var tilkynnt hvaða verk hlutu tilnefningu til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2021. Annað verkið er Aðferðir til að lifa af eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur og hitt er Um tímann og vatnið eftir Andra Snæ Magnason.
Í umsögn dómnefndar um verk Guðrúnar Evu kemur m.a. eftirfarandi fram:
Guðrún Eva sýnir hér á listilegan hátt þá miklu næmni sem hún býr yfir sem rithöfundur. Hún færir okkur heim hljóðlátan en ólgandi heim þar sem þrá eftir tengslum, sá djúpstæði kraftur, brýst upp á yfirborðið á ferskan hátt. Frásögnin tekur á sig blæ keðjusöngs, þar sem raddirnar kvikna ein af annarri, taka við laglínunni og fléttast saman um hríð svo úr verður sérlega áhrifamikið, margradda verk. Yfir öllu liggur værðarvoð öryggis, virðingar og djúps skilnings höfundar á þeim aðferðum sem maðurinn nýtir sér til að lifa af.
Alls eru 14 norræn verk, skáldsögur, smásagnasöfn og ljóðabækur, tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2021. Sjá má allar tilnefningar og umsagnir dómnefnda hér.
Það verður tilkynnt hver hlýtur verðlaunin í nóvember, í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn.