Svipmynd af Margréti Örnólfsdóttur
Skáld vikunnar er Margrét Örnólfsdóttir. Margrét er fjölhæfur listamaður sem unnið hefur á mörgum sviðum. Hún er rithöfundur, handritshöfundur og tónlistarkona sem hlaut Íslensku bjartsýnisverðlaunin 2017 sem afhent voru í janúar 2018.
Margrét Örnólfsdóttir (Mynd: Hari/Fréttatíminn).
Ferill Margrétar spannar yfir 30 ár og hefur hún komið víða við. Sem tónlistarmaður starfaði hún sem hljómborðsleikari Sykurmolanna frá 1988 til 1994 og síðan sjálfstætt við ýmiss verkefni. Ritstörf voru alltaf hugleikin og fyrsta bók hennar kom út árið 2009. Hún hefur síðan getið sér gott orð sem handritshöfundur fyrir sjónvarp og komið að gerð fjölmargra þáttaraða.
Margrét var valin heiðurslistamaður Kópavogs 2017-2018. Texti úr bókum Margrétar var í Lestrargöngu Bókasafns Kópavogs sem sett var upp á gönguleiðum í nágrenni Menningarhúsa bæjarins.
Yfirlit yfir ævi og störf Margrétar má finna í Skáldatalinu hér á vefnum en þar má einnig líta hluta úr ritaskrá hennar og yfirlit yfir verðlaun og viðurkenningar.
Í umsögn dómnefndar Íslensku bjartsýnisverðlaunanna kemur fram að Margrét sé gott dæmi um "listamann 21. aldarinnar, sem fetar ótroðnar slóðir, vinnur á mörgum sviðum lista og tengir þannig greinarnar og reynslu sína þvert á hefðbundna skilgreiningu.
Nú síðast skrifaði hún þáttaröðina Fanga sem naut mikilla vinsælda og hefur verið seld til fjölmargra sjónvarpsstöðva í Evrópu. Meðal annara þátta sem hún hefur unnið að eru Réttur, Pressa, Svartir englar og Ófærð."
Hér má sjá viðtal við Margréti sem tekið var fyrir Kvikmyndahátíð Framhaldskólanna.
"Margrét hefur einnig skrifað fyrir leiksvið, leikgerð að Lísu í Undralandi sem sett var upp hjá Leikfélagi Akureyrar í fyrravetur, einleikinn Kameljón og útvarpsverkið Skuggablóm sem flutt var á RÚV í fyrra.
Margrét hefur skrifað skáldsögur fyrir börn og unglinga, meðal annars bókaflokkinn um Aþenu og hafa bækur hennar unnið til fjölda viðurkenninga.
Þá hefur Margrét verið formaður Félags leikskálda og handritshöfunda frá árinu 2013 auk þess að sitja í stjórn Norrænu leikskáldasamtakanna og stjórn Bandalags íslenskra listamanna."
Hér má hlusta á Margréti og Nínu Dögg Filippusdóttur í þættinum Segðu mér en þar segja þær frá frá Föngum og hvernig hugmyndin þróaðist.
Ása Jóhanns