Tækifæri fyrir kvenleikskáld!
Nýverið birtist þessi auglýsing um leikritasamkeppni á vegum Þjóðleikhússins þar sem sérstaklega er óskað eftir leikverkum eftir konur:
Þjóðleikhúsið vill efla leikritun á Íslandi og segja sögur sem eiga brýnt erindi við okkur. Auglýst er eftir nýjum leikverkum, hvort heldur fullbúnum verkum eða vel útfærðum hugmyndum til þróunar innan leikhússins. Að þessu sinni er lögð sérstök áhersla annars vegar á frumsamin leikverk eftir konur og hins vegar verk sem fjalla með einhverjum hætti um fjölbreytileika og fjölmenningu. Það útilokar á engan hátt önnur áhugaverð verk eða hugmyndir. Þjóðleikhúsið stendur fyrir öflugu höfundastarfi með það að markmiði að efla leikritun á Íslandi. Við tökum til skoðunar hugmyndir og handrit á öllum vinnslustigum og vinnum markvisst með leikskáldum frá fyrstu hugmynd til fullbúinna verka. Óskað er eftir handritum í fullri lengd eða vel útfærðum hugmyndum að leikritum, með sýnishorni af leiktexta. Stutt lýsing á verkinu, 1-2 bls., skal fylgja, þar sem fram kemur persónufjöldi, atburðarás og ætlunarverk höfundar. Einnig skal fylgja stutt ferilskrá höfundar. Höfundar af öllum kynjum og mismunandi uppruna eru hvattir til að senda inn leikverk. Höfundarlaun fyrir fullbúin verk eða hugmyndir í þróun verða greidd samkvæmt samningi Þjóðleikhússins við Rithöfundasamband Íslands. Nánari upplýsingar á leikritun@leikhusid.is. Umsóknarfrestur er til og með þri. 6. apríl 2021. Sjá nánar hér.
Það er allt of sjaldan sem leikverk íslenskra kvenna rata á leiksviðið, svo nú er lag!