SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir 5. mars 2021

Tímaritið ÓS

20. október 2016 kom í heiminn nýtt bókmenntatímarit á Íslandi, Ós - The Journal. Í því birtust skáldskapartextar bæði á íslensku og ensku eftir 23 höfunda frá Íslandi, Noregi, Baskalandi, Bandaríkjunum, Kanada, Kolumbíu, Bretlandi, Hollandi, Filipseyjum, Kúpu og Japan. Tímaritið hefur síðan komið út 2017, 2018 og 2019/2020 og birt texta á fleiri tungumálum, til að mynda þýsku, dönsku, frönsku, spænsku, pólsku, finnsku, hollensku eftir höfunda frá öllum heimshornum. Hér er því um að ræða eina fjöltungutímaritið á sviði bókmennta á Íslandi.

Ós - The Journal á rætur að rekja til ritsmiðju Bókmenntaborgarinnar Reykjavík og Söguhrings kvenna sem stofnað var til fyrst 2014 og síðan aftur snemma á árinu 2015 í tilefni af 100 ára kosningarétti kvenna. Þar var konum af ólíkum uppruna boðið að spreyta sig á skrifum undir handleiðslu Angelu Rawlings. Í ritstjórnargrein fyrsta heftis segir:

Hópur reykvískra kvenna frá ólíkum löndum kom saman eina helgi, skrifaði, spjallaði og skapaði alls konar texta sem voru afar ólíkir bæði að formi og innihaldi. Þetta reyndist svo skemmtilegt að Bókmenntaborgin ákvað að endurtakinn leikinn ári síðar og bjóða upp á lengri smiðju þar sem konur gætu unnið saman um nokkurra mánaða skeið, hist, borið saman bækur sínar í gegnum samskipti á netinu og loks kynnt afrakstur vinnunnar fyrir almenningi. Úr varð hópur skapandi kvenna með ólíkan bakgrunn, tungumál og ritstíl en sameiginlegan brennandi áhuga á því að skrifa bókmenntatexta. Í framhaldinu varð Ós pressan til ...

Þótt uppruni Ós - The Journal sé því hjá konum af erlendum uppruna og hafi miðað að því að koma ritlist þeirra á framfæri, tók ritnefndin strax þá ákvörðun að opna tímaritið fyrir öllum kynjum og öllum tungumálum. Í ritstjórnargrein í heftinu sem kom út 2018 segir:

Við hjá Ós Pressunni trúum því að það sé nauðsynlegt að hvetja til þess að fjallað sé um alla menningarheima þegar rætt er um að efla menningu. Ólíkir einstakl-ingar leggja fram ólíkar hugmyndir sínar á mismunandi vegu og sem samfélag verðum við að vera opin fyrir því að hlusta á, sjá og lesa um þessi ólíku sjónarhorn.

Tímaritið birtir nú ekki aðeins texta heldur einnig myndlist; teikningar og teiknimyndasögur. Þá er einnig í síðari heftum að finna QR kóða sem opna lesendum leið að ýtarefni, svo sem ljósmyndum og teiknimyndasögum.

Í ritstjórnargrein fjórða heftis 2019/2020 segir:

Tungumálið er svo flókið fyrirbæri. Það er tækið sem við notum til að hafa samskipti hvert við annað, í eigin persónu eða milli heimsálfa, sem við beitum til að miðla hugmyndum okkar og löngunum og tengjast öðrum manneskjum, en það getur líka verið þröskuldur á milli okkar og hluti af mörkunum sem eru dregin millli fólks, verið einangrandi og erfitt. Allir sem hafa dvalið fjarri móðurmálssvæði sínu þekkja þær flóknu tilfinningar sem geta vaknað þegar maður hefur ekki vald á tungunni og er ófær um að flytja mál sitt og tala við fólk á jafnréttisgrundvelli; pirringinn og reiðina, hlédrægina og uppgjöfina, angistina og vanmáttarkenndina. Stundum er þessi upplifum bara holl áminning um umheiminn en þegar stéttaskipting, útlendingahatur og rasismi koma inn í myndina er það eitruð blanda. Í besta falli er það að læra ný tungumál hins vegar mögnuð og skapandi reynsla sem varpar ekki síður ljósi á virkni og möguleika móðurmálsins eða móðurmálann. Ós býður okkur að rífa niður múrana, ýta burt angistinni og leika okkur með allt þetta tungumál. Að ryðja leiðina fyrir nýjar raddir í íslenskum skálskap er ekki aðeins mikilvægt réttlætisverkefni heldur jafnframt grundvöllurinn að grósku og framtíð íslenskra bókmennta.

Íslenska orðið ós vísar til staðar, árósar, þar sem ár kvíslast eða renna saman áður en þær sameinast úthafinu. Sé lögð ensk áhersla á ó-ið kemur fram undrunar- eða fagnaðaróp sem vaknar þegar maður kynnist einhverju nýju og spennandi. Sé síðan pólsk áhersla lögð á orðið kemur fram merkingin öxull. Allar þessar merkingar eru að verki í titil tímaritsins.

Ós - The Journal er gersemi í íslenska bókmenntalandslaginu. Það er verulega spennandi að sjá rithöfunda, skáld og listamenn úr hópi innflytjenda marka sér bás á sviði íslenskra bókmennta og lista. Í Skáld.is óskar tímaritinu velfarnaðar og hlakkar til að fylgjast með því í framtíðinni.