SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir 8. mars 2021

Eftirmæli (stolin og stæld)

eftir Rögnu Steinunni Eyjólfsdóttur (f. 1936) sem bætist í skáldatalið í dag.

Til hamingju með alþjóðlegan baráttudag kvenna!

Blessuð sé minning hennar.

Hún helgaði fjölskyldunni alla krafta sína.

Hefði hún ekki alltaf verið reiðubúin

að elda mat jafnt á nóttu sem degi

hefði fjöldinn allur af krakkavillingum dáið úr sulti.

Og engin var vísari til að styrkja húsbóndann

í hretviðrum lífsins með heitum kaffisopa.

Frá henni kom hann endurnýjaður út í lífsbaráttuna.

Aldrei heyrðist frá henni óþreyjuorð.

Eldhúsið var hennar staður.

Þar naut hún sín.

Eg er viss um að hún fær alla sína fórnfýsi

þúsundfalt borgaða

á eilífðarlandi öskuhauganna.

Vertu sæl, gamla eldavél.

Á morgun kemur nýja eldavélin úr kaupstaðnum.

(TMM, 1979)