SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir12. mars 2021

SKRIFAÐI Á KVÖLDIN

Ragna Steinunn Eyjólfsdóttir hefur skrifað sitthvað og bætist nú í skáldatalið. Þessa stundina eru skáldkonurnar sem safnað hefur verið saman á skáld.is orðnar 359 talsins.

(Ragna) Steinunn byrjaði að skálda þegar hún var lítil og sagði sjálfri sér sögur í sveitinni. En tíminn til að skrifa var því miður ekki mikill um dagana. Hún átti átta börn og vann mikið úti, við fiskvinnslu, á elliheimili og sjúkrahúsi. Auk þess var hún bóndakona á þremur stöðum á landinu, eins og fram kemur í viðtali við hana í tímaritinu Veru, 1989.

Hún skrifaði fyrstu íslensku draumaráðningabókina sem ekki byggir á þýðingum heldur hennar eigin rannsóknarvinnu með tákn og fleira. Einnig safnaði hún saman dulrænum sögnum, aðallega frá Vestfjörðum. Í spjalli sem Kristín Marja Baldursdóttir rithöfundur (sem þá var blaðamaður) átti við Steinunni kom fram hið sama stef og svo oft ómar hjá skáldkonum, að tími til ritstarfa er naumur þegar heimilið er stórt.

Ég skrifaði á kvöldin þegar allir voru sofnaðir, og ég held að þegar rithöfundar geta ekki skrifað nema í frístundum sínum beri skáldskapur þeirra þess merki. Ég valdi að yrkja ljóð, enda er hægt að segja eins mikið í einu ljóði og í heilli bók...

Meira um Rögnu Steinunni hér.

 

Tengt efni