Rétt viðbrögð...
Ljóð dagsins er eftir Sigurlínu Bjarneyju Gísladóttur sem birtist í Ljóðabréfi No 3 sem Tunglið forlag gaf út á árinu. Ljóðið á býsna vel við þessa dagana þegar allt leikur á reiðiskjálfi. Þá er nú jafn gott að vera með réttu viðbrögðin á hreinu!
Rétt viðbrögð við áfalli/veiru/
jarðskjálfta/eldgosi/ofbeldi/
nauðgun/lífshættu/árás
Hlaupa garga þegja
frjósa flýja frjósa flýja
slökkva á sér sofna vakna
öskra hrópa bölva dansa skríða
undir borð
uppá borð
halda í gluggakarma
sleikja rúðuna
brjóta spegilinn á baðinu
tæma ísskápinn
undir sæng
oná sæng
ríða fróa sér svo
gráta í koddann á húðina í grímuna
Sofna standandi slefa í koddann
þegja og fela sópa sópa sópa
fara í minipils síðpils minipils síðpils til skiptis
buxur stuttbuxur smekkbuxur nærbuxur
öskra bíta og slá þegja og klappa köttum
Drekka gos kaffi viskí og vatn
þurrka sig upp
byggja virkisveggi
brjóta veggi
fara í bað
setja kaffikorg í hárið og hlæja
hlæja mikið hlæja lítið hlæja ekkert og aldrei framar
vera á verði og gráta
vera ávalt viðbúin/nn og sofna
vökva blóm drepa flugur
faðma og hrinda faðma og hrinda
leggjast í hýði verða púpa
brjótast inn brjótast út
klippa vængi festa vængi
fljúga ljúga júga úga ga a
og vita skaltu vita skaltu að
öll öll öll öll öll ÖLL ÖLL ÖLL
viðbrögð eru rétt
sama hver þau eru
þá eru þau rétt
því þau eru þín
þú undurfagra strá