Tvær konur hlutu Íslensku þýðingaverðlaunin
Elísabet Gunnarsdóttir enskukennari og Hildur Hákonardóttir listakona hlutu í gær Íslensku þýðingaverðlaunin fyrir þýðingu sína á Walden eftir bandaríska heimspekinginn og skáldið Henry David Thoreau. Elísabet og Hildur eru saman um þýðinguna en auk þess gerir Hildur myndirnar í bókinni og Gyrðir Elíasson skrifar formála.
Walden, eða Lífið í skóginum, eftir Henry David Thoreau kom fyrst út árið 1854 og er grundvallarrit í heimspeki náttúruverndar. Í bókinni greinir Thoreau frá tilraun sem hann gerði til að lifa sjálfbæru lífi í náttúrunni, einangraður í húsi sem hann byggði sjálfur, við Walden vatnið í Nýja -Englandi í Massachussets ríki.
Í dómnefnd sátu Ingunn Ásdísardóttur, formaður, Helga Soffía Einarsdóttir og Steinþór Steingrímsson. Að sögn nefndarinnar fangar þýðingin einkar vel stemningu 19. aldar á afar vandaðri og ljóðrænni íslensku án þess þó að vera gamaldags; hún nái vel að fanga hrifnæmi náttúruunnandans sem láti engan lesanda ósnortinn. Þá beri eftirmálar og skýringar þýðenda vitni um ígrundaða vinnu og mikil prýði væri af teikningum Hildar.
Myndin er sótt á vefsíðu RÚV.