SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir23. mars 2021

Bókmenntakvöld: Ýmsar hamfarir

Eftir viku, þriðjudagskvöldið 30. mars, verður boðið upp á bókmenntakvöld í Bókasafni Seltjarnarness. Þá mun Sigríður Hagalín fjalla um og lesa upp úr bók sinni Eldarnir – Ástin og aðrar hamfarir.

Jarðskjálftar hafa skekið Reykjanesskagann allhressilega og nú gýs í Geldingadal. Því á bók Sigríðar ákaflega vel við þessa dagana því hún fjallar einmitt um slíkar aðstæður, líkt og segir í kynningu á bókinni:

Jarðskjálftar skekja Reykjanesskaga, eldfjöllin eru vöknuð til lífsins eftir 800 ára hlé. Enginn þekkir þau betur en eldfjallafræðingurinn Anna Arnardóttir, forstöðumaður Jarðvísindastofnunar, sem þarf að takast á við stærsta verkefni ferilsins við stjórn almannavarna. En áferðarfallegt og hamingjuríkt líf hennar lætur ekki lengur að stjórn.

Viðburðurinn stendur frá 19:30-20:30 og eru öll velkomin meðan húsrúm og fjöldatakmörkun leyfir. Það er grímuskylda í húsinu og fólk er beðið að virða 2ja metra reglu.

Viðburðurinn á Facebook er hér og hægt er að skrá sig hér.