SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn23. október 2017

Fríða Á. Sigurðardóttir

Skáld vikunnar er Fríða Á. Sigurðardóttir. Fríða lést árið 2010 og skildi eftir sig fjöldan allan af smásögum, ljóðum og skáldsögum ásamt þýddum verkum, fræðibókum og greinum. Fyrsta bók Fríðu, smásagnasafnið Þetta er ekkert alvarlegt, kom út árið 1980. Hún sendi síðan frá sér fleiri smásögur auk skáldsagna og þýðinga á verkum erlendra höfunda. Yfirlit yfir verk hennar má finna hér í Skáldatalinu.

Skáldsaga hennar, Meðan nóttin líður (1990), hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 1991 og Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 1992. Í ritdómi Súsönnu Svavarsdóttur um bókina sem birtist í Morgunblaðinu þetta sama ár segir m.a „...bók, sem varla á sína líka á undanförnum árum, hvað varðar íslensk skáldverk...afburðavel skrifuð... svo hlaðin er hún af sannleika, hlýju, samkennd og kærleika." Árið 2016 birti RÚV mjög góðan pistil ásamt upplestrum úr bókinni sem finna má hér.

,,Hve erfitt það er að komast að eingildum sannleika um líf og list." Í umfjöllun VERU um Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs í febrúar 1992 kemur fram að:,, Fríða Á. Sigurðardóttir lýsir í ljóðrænum texta þessarar bókar þörf okkar fyrir sögu og frásögn um leið og bókin lýsir hve erfitt það er að komast að eingildum sannleika um líf og list."

Fríða helgaði sig ritstörfum og sagði í viðtali við Ragnhildi Richter í desember 1986 að það væri „ekkert skemmtilegra til en að vera rithöfundur þegar vel gengur að skrifa. Að fást við orðið afturábak og áfram og finna að orðin hlýða, að maður ræður við þau. Að móta þau í þá mynd sem ég vil fá, ég veit ekkert stórkostlegra. En ekkert er hræðilegra en að vera rithöfundur þegar illa gengur, að vera eins og stíflað sigti sem ekkert kemst í gegnum."

Fríða les ljóð sitt Ekkjan

Fríða tók þátt í upptökum á hljóðbókinni Konan: Maddama, kerling, fröken, frú sem gefin var út í tengslum við sýningu á höggmyndum Sigurjóns Ólafssonar í listasafni hans árið 2002. Á disknum lásu skáldkonur eigin ljóð við höggmyndir Sigurjóns og hér í spilaranum má hlýða á Fríðu lesa ljóð sitt Ekkjan.

 

Ása Jóhanns