Þú alþýðukona - Ingibjörg Benediktsdóttir
Ljóð vikunnar að þessu sinni er Þú alþýðukona en það birtist í ljóðabókinni Frá afdal - til Aðalstrætis sem kom út árið 1938. Ingibjörg Benediktsdóttir fæddist árið 1885 og varð tæplega sjötug. Hún starfaði sem kennari og sinnti ýmsum félagsmálum; hún var í Kvenréttindafélagi Íslands og sat um skeið í stjórn þess. Finna má frekari upplýsingar um Ingibjörgu í Skáldatalinu hér á Skáld.is.
Hvort á ég að segja þér söguna mína,
já, söguna mína, og líklega þína,
þú öreiga dóttir, þú alþýðukona?
Í einstökum dráttum þá hljóðar hún svona:
Frá óminnisbernsku var baslað og stritað,
hvert basl þetta stefndi, ei spurt var né vitað.
Að vetri og sumri, frá vori og hausti
í vonleysi drekkt öllu barnslegu trausti.
Við sökuðum engan, en sárt var það stundum,
við systurnar muninn á kjörunum fundum:
þótt bræðurnir ynnu sér fé eða frama,
við fengum ei slíkt, þó við þráðum hið sama.
Ef okkur var skipað, við áttum að hlýða,
en iðnar og feimnar og hógværar bíða,
uns kóngssonur okkur úr álögum leysti,
hver yngismey draumlynd á sögn þessa treysti.
En venjur og almenningsálit ef brutum,
við aðkast og háðsglott frá nágrönnum hlutum.
Með einu var hughreyst, þótt enginn oss skildi,
að ókvenlegt skass enginn karlmaður vildi.
Og óráðnar draumspár, og ástasvik löngum,
varð ævikvöld sumra í lífskjörum þröngum,
þau kvenlegu örlög vor, þeim varð ei þokað,
ef þar urðum sekar, var hliðunum lokað.
Við kotungsson títt fyrir konungsson hlutum,
og kærleika í fyrstu og bjartsýnis nutum.
En þrá vor um auðsæld og indæla daga
varð öreigans þrotlausa hrakningasaga.
Við allflestar höfuðin hljóðlega beygðum,
í hlýðninni og skyldunni takmark vort eygðum.
En einstaka þrjóskum og þverlyndum konum
var þröngvað með dómi, - svo lutu þær honum.
Því hugsjón ef áttum og einurð ei skorti,
af uppreist það stafaði, heimsku eða gorti.
- Já, hún þyrfti að vorkennast, henni skal svíða,
hún hljóðnar og vitkast, ef börn hennar líða!
Og rangsleitni og ofsókn við eigum að bera
með auðmýkt, - til góðs þetta hlýtur að vera.
Þú átt ekki að hefna þín, alþýðukona,
þú allt átt að þola, - þín staða er svona.
En skemmtileg er svo, ef skáldin þig finna
með skörung og sóp þínum störfum að sinna;
þar grátin þú máske ert í glóðina að skara,
því grátur er einasta líkn þinna kjara.
Og meðtak þar lofgerð um móðurást blíða,
að mest sé að elska og þola og líða.
Þigg hjartnæma þökk hina háu og ríku,
er hnígurðu þrotin frá dagsverki slíku.
Að dreyma og unna, að strita og stríða,
að sljóvgast, og hljóð hverja skapraun að líða,
og öllu að fórna um ævinnar daga,
er ennþá vor sjálfsagða, fábreytta saga.
Ég sagt hef í einlægni söguna mína,
já, söguna mína, og líklega þína,
en þungbærast er þér þó, alþýðukona,
ef ævin, sem dætranna bíður, er svona.
Já, viðbragð því tökum við stundum og stöndum,
og strjúkum burt tárin með skjálfandi höndum,
ef greint höfum bjarma af bjartara degi,
svo börn okkar rati þó greiðari vegi.
Lát okkur, sem þjónana, í friði þá fara,
ef framtíðin stefnir til batnandi kjara.
Í sögunni okkar þá blað verður brotið,
er börn vor fá heilbrigðra lífsgæða notið.
Þó margir enn kími og öxlunum yppti,
og ágóða hverjum við háborðin skipti,
skal öllum nú leiðbeint, með einbeitni og vilja,
vort eðli og kröfur og hlutverk að skilja.
Að deyma og unna, að vaxa og vinna,
í visku og þroska vort kveneðli finna,
mun efnið og kjarninn á ókomnum dögum
í alþýðukvennanna framtíðarsögum.