SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir30. október 2017

Útgefandinn Kvenréttindafélag Íslands

Kvenréttindafélag Íslands hefur gefið út nokkrar bækur. Þar er fyrst að nefna að árið 1957, þegar félagið varð fimmtíu ára, var haldin vegleg sýning á verkum kvenna og í kjölfarið var gefin út bókaskrá sem geymir lista yfir útgefnar bækur kvenna frá árinu 1800 til 1956. Árið 2014 gaf félagið verkið út í rafrænni útgáfu þar sem það var orðið ófáanlegt. Hér má nálgast rafrænu útgáfuna.

Kvenréttindafélagið stóð að útgáfu fleiri bóka. Veröld sem ég vil : saga Kvenréttindafélags Íslands 1907-1992 eftir Sigríði Th. Erlendsdóttur kom út 1993, og fjallar um sögu íslenskrar kvennabaráttu, og árið 1999 kom út Gegnum glerþakið: valdahandbók fyrir konur eftir Maria Herngren, Eva Swedenmark og Annica Wennström og sneri Björg Árnadóttir henni yfir á íslensku. Báðar þessar bækur eru til sölu á skrifstofu félagsins á vægu verði.

Árið 2014 kom út ljóðabókin Konur á ystu nöf en hana gaf Kvenréttindafélagið út í samstarfi við bókaútgáfuna Meðgönguljóð. Í bókina rataði afrakstur samnefndrar bókmenntahátíðar í Reykjavík árið 2014. Í safninu eru ljóð eftir íslenskar skáldkonur ásamt skáldum frá Finnlandi, Grænlandi og Færeyjum. Af íslenskum skáldkonum má nefna Arngunni Árnadóttur, Bergrúnu Önnu Hallsteinsdóttur, Björk Þorgrímsdóttur og Valgerði Þóroddsdóttur.

Myndin er sótt á vefsíðu Kvenréttindafélags Íslands, sjá hér.