KRISTÍN STEINSDÓTTIR ER SKÁLD VIKUNNAR
Skáld vikunnar er Kristín Steinsdóttir. Kristín er afar fjölhæfur rithöfundur sem unnið hefur á flestum sviðum ritlistarinnar. Hún hefur skrifað fjölda bóka fyrir börn og unglinga og þýtt barnabækur úr þýsku. Hún hefur einnig sent frá sér skáldsögur fyrir fullorðna, skrifað kvikmyndahandrit og samið leikrit í samstarfi við systur sína, Iðunni Steinsdóttur rithöfund. Kristín hefur hlotið margskonar verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín. Krtistín var um árabil einn af ástsælustu barnabókahöfundnum þjóðarinnar og fór svo að skrifa fyrir fullorðna, skref sem að hún telur að hafi verið sér til gæfu. Í viðtali við Davíð K. Gestsson á vef íslenskra bókmennta segir Kristín:
,,Fyrsta verkið sem ég skrifaði fyrir fullorðna, Sólin sest að morgni (2004), hafði líka verið lengi með mér áður en það kom út. Þetta var tveimur árum á eftir Engli í Vesturbænum . Í rauninni hafði ég skrifað söguna margoft í huganum. Til að byrja með kom ég ekki auga á að gera neitt annað en að skrifa fyrir börn. Svo fór mig að langa að skrifa fyrir fullorðna. En þegar ég sýndi forlaginu mínu handritið þótti mönnum þetta vera óþarfabrölt. Búin að vinna til fjölda verðlauna sem barnabókahöfundur. Ætti ég ekki bara að halda mig við það? Þegar bókin kom svo loks út var ég titrandi af kvíða yfir því að vera með fullorðinsbók. Þá var ég samt búin að gefa út á þriðja tug barnabóka! Þarna var ég komin á nýjan stað, nýtt umhverfi og bókin fékk rífandi góða dóma. Þó að þetta væri taugatrekkjandi, þá er það samt afskaplega skemmtilegt í endurminningunni!“ [...] ,, Í dag mundi ég ekki láta segjast að vera kyrr og stillt. Auðvitað er fullt af fólki sem fer á milli bókmenntagreina og sjálf er ég viss um að ég er ríkari af því að hafa ekki verið á sama stað alla tíð. Maður getur auðveldlega einangrast með því móti. Þú hugsar öðruvísi þegar þú skrifar fyrir fullorðna, og svo kemurðu bara ferskur inn þegar þú skrifar næst fyrir börn. Þú batnar við þetta og auðvitað er fullt af rithöfundum sem vinna svona. Ég átti bara ekkert að láta ráðskast með mig.”
Hér ræðir hún við Egil Helgasson um bók sína Bjarna-Dísu:
https://www.youtube.com/watch?v=GcGlT0ld4z0
Ása Jóhanns