Yrsa Sigurðardóttir
Skáld vikunnar er Yrsa Sigurðardóttir en hún er landsmönnum vel kunn fyrir glæpasögur sínar. Hún hefur einnig verið talinn í hópi fremstu glæpasagnahöfunda Norðurlanda, að mati breska stórblaðsins The Times. Yrsa er fædd árið 1963 og er verkfræðingur að mennt og starfar sem slíkur meðfram skriftum.
Yrsa hefur gefið út 18 skáldsögur en fyrsta bók hennar kom út árið 1998. Nýjasta bók hennar Gatið kom út í núna fyrir jólin 2017. Í bókinni fléttast ólíkir þræðir saman í spennandi atburðarrás sem leyst er á klassískan hátt af lögreglumanninum Huldari og sálfræðingnum Freyju, kunnum persónum úr sögum Yrsu.
Í kynningu bókarinnar segir:
Umsvifamikill fjárfestir finnst látinn í Gálgahrauni, á hinum forna aftökustað sem blasir við frá Bessastöðum. Barnaverndaryfirvöldum í Reykjavík er tilkynnt um lítinn dreng sem er aleinn og yfirgefinn í ókunnugri íbúð. Og fjórir vinir óttast að leyndarmál þeirra verði afhjúpað. Við lausn málsins leggja saman krafta sína Huldar lögreglumaður og sálfræðingurinn Freyja sem lesendur þekkja úr fyrri sögum Yrsu; Aflausn, Soginu og DNA en hún var valin besta íslenska glæpasagan 2014 og besta glæpasagan í Danmörku 2016.
Útgefandi Yrsu á Íslandi er Veröld bókaútgáfa en verk hennar hafa verið þýdd á fjölmörg tungumál og gefin út um allan heim. Í kynningu á Yrsu hjá Veröld kemur fram að Yrsa hafi vakið,, vakti mikla athygli þegar hún sendi frá sér sína fyrstu glæpasögu, Þriðja táknið haustið 2005. Áður en sagan kom út á íslensku hafði útgáfurétturinn verið seldur víðar en dæmi voru áður um þegar um íslenskt verk er að ræða. Þá hafði verið gengið frá samningum um útgáfu á bókinni á ellefu tungumálum í yfir þrjátíu löndum. Þriðja táknið hefur komið út á yfir 30 tungumálum í yfir 100 löndum í öllum byggðum heimsálfum veraldar. [...] Yrsa Sigurðardóttir hóf feril sinn sem barnabókahöfundur árið 1998 með bók sinni Þar lágu Danir í því. Hún hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin árið 2003 fyrir Biobörn. Árið 2000 fékk hún viðurkenningu Barnabókaráðs Íslands, Íslandsdeildar IBBY, fyrir bókina Við viljum jólin í júlí. "
Nánari umfjöllun um Yrsu má finna í Skáldatalinu hér á Skáld.is. Eggert Gunnarsson gerði stutta heimildarmynd um höfundinn sem kom út árið 2015. Í henni kynnumst við Yrsu og hennar nálgun sem rithöfundar við viðfangefni sín. Myndina má sjá hér.
Ása Jóhanns