SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir19. desember 2017

xii kaðall - Kristín Ómarsdóttir

Ljóð vikunnar er að þessu sinni frumbirting en ljóðið xii kaðall hefur hvergi birst áður. Höfundur er Kristín Ómarsdóttir en hún er eitt af okkar fremstu skáldum. Kristín hefur fengist jöfnum höndum við ljóða- og skáldsagnagerð, smásögur og leikritun og hefur hún hlotið fjölda viðurkenninga fyrir verk sín. Á haustmánuðum kom út ljóðabók hennar Kóngulær í sýningargluggum og er hún tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Frekari upplýsingar um skáldkonuna má finna í Skáldatalinu.

xii

kaðall

ó

á vondaufum degi treður meistarinn glerbrotnum regnboga upp í mig
þau skera orðin niður í sneiðar, hann heftar á mér kjaftinn

heft, heft, sárabindi, plástur
hann merkir tjúllann: vinnusvæði

ó

eitt sinn á vondaufum degi kyssti ég regnbogann
(ha, ha, ha, hlátur af segulbandi)
svo laumaði hann hendinni undir kjól minn,

úr vösum hans dró ég kaðal
meiri kaðal, endalaust

ó

ég meiddi mig ekkert