SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir 5. janúar 2018

Pantheon I – Þórunn Jarla Valdimarsdóttir

Að þessu sinni frumbirtir Skáld.is ljóð eftir Þórunni Jörlu Valdimarsdóttur en það mun birtast í ljóðabókinni Villimaður í París sem kemur út um páskaleytið. Þórunn tileinkar ljóðabókina eiginmanni sínum heitnum, Eggerti Þór Bernharðssyni, sem lést í árslok 2014. Ljóðunum fylgja ýmist ljósmyndir eftir Eggert eða teikningar eftir Þórunni. Ljósmyndina af þeim hjónum tók Ásgeir Ebeneser.

Þórunn á langan ritferil að baki og hefur sent frá sér skáldsögur, ljóðabækur, ævisögur og sagnfræðirit auk fjölda greina og þátta fyrir bæði útvarp og sjónvarp. Frekari upplýsingar um Þórunni má finna í Skáldatalinu.

Pantheon

I

við gengum þreytt

svöng og þyrst

að hofi allra goða

draghölt

eftir dagsrölt

og sáum

yfir súlunum:

Aux grands hommes

la patrie reconnaissante [1]

hof stóru hommanna!

sagðir þú

hlógum

villimannlega

enda bannað að hlæja

að hommum

og stórmennum

hlógum brjálæðislega

hlógum dauðann til okkar

föðmuðum hann

því við höfðum skilað pundi

dal, krónu, franka

þrjátíu bókum og tveimur sonum

hlógum líf okkar

í sátt

elskan mín

ég þarf ekki að sjá þig eldast

og þú ekki mig

það er svo gott

þú ætíð ungur

ég þér alltaf ung

okkar band

ber vor, sumar, haustliti

---------

[1] Hús þekktra mikilmenna föðurlandsins.