SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir19. febrúar 2018

Af mér - Didda

Ljóðið Af mér er eftir Diddu, Sigurlaugu Jónsdóttur, og birtist árið 1995 í ljóðabókinni Lastafans og lausar skrúfur.

Af mér

Ég flaug

lenti, var sannfærð

um að ég væri

dáin.

Var það ekki.

Og löggan yfir

andliti mínu

bað mig vera

kyrra.

Ég stóð upp.

Rak löggurnar

út úr garðinum

reif mig úr

blautum fötunum

á leiðinni upp

og bauð þeim

í hópsex.

Ég man ekki hvort

þeir vildu það

ég man ekki meir.

Og mundi ekkert í nokkra daga.

Hafði bara jörðina

á öxlunum og

sprungur í bakinu.

Mundi ekki eftir

fluginu, kveðjunni

frá sjálfri mér

ópinu úr barka mínum

nóttinni, regninu

þakinu.

En ég mundi strax

daginn eftir hvar

hassið mitt var.

Og á meðan líkami

minn stirðnaði

reykti ég.

Tveim dögum síðar

var ég komin

á barinn

drakk soldið

út á bakbrotið

og forðaðist

umfram allt

að upplifa flugið.

Því það sem var

af mér að segja

var of hrætt

of eitt

of lifandi.

En brotið.

Myndin af Diddu er sótt á vefsíðuna unifrance.org.