Bergrún Anna Hallsteinsdóttir
Skáld vikunnar er Bergrún Anna Hallsteinsdóttir en hún er eitt af ungskáldum Partus Press. Bergrún er fædd árið 1986 og lauk stúdentsprófi frá Hagley College í Christchurch á Nýja Sjálandi og síðan BA prófi í myndlist frá Listaháskóla Íslands 2015.
Bergrún hefur birt ljóð í árlegu safnriti The New Zealand Poetry Society og í safnritunum Ljóð í leiðinni: Skáld um Reykjavík og Konur á ystu nöf. Fyrsta ljóðabók Bergrúnar, Stofumyrkur, kom út í seríu Meðgönguljóða árið 2013. Henni var ritstýrt af Valgerði Þóroddsdóttur.
Bergrún Anna gaf einnig út ljóða- og myndlistartímaritið Murder Magazine ásamt Sítu Valrúnu. Tímaritið fjallar um ljóð- og myndlist og í því er að finna myndverk, ljósmyndir, ljóð og texta. Fölbreyttur og alþjóðlegur hópur listamanna á efni í blaðinu. Hægt er að skoða Murder Magazine hér á Issuu.
Í viðtali við DV segir Bergrún frá því hvernig hugmyndin kom til og verkefnið varð að veruleika:
„Hugmyndin hafði verið að gera svolítið persónulega sýningu sem myndi fjalla um okkar upplifun af heiminum,“ segir Bergrún. „Samtalið okkar virtist alltaf koma aftur að því að við erum báðar konur og hvernig upplifun okkar mótast af því,“ bætir Síta við.
„Í undirbúningsferlinu enduðum við svo á því að nota tímann í að reyna að kryfja þetta, ræða mismunandi týpur af femínisma og bara almennt vera í uppnámi. Við fórum að velta fyrir okkur hvernig við gætum skapað vettvang fyrir þessa umræðu, sýnt hvernig ólíkt fólk er að tjá sig án þess að við værum sjálfar með einhverjar yfirlýsingar eða slagorð. Fyrsta hugsunin var því að vera með fréttabréf á netinu,“ segir hún.
„Já, við vildum fyrst og fremst búa til þennan vettvang og eftir að hafa rætt þetta í svolítinn tíma ákváðum við að láta hann taka þetta form. Við ákváðum að gefa út tímarit þar sem við gætum leyft alls konar hlutum að koma fram, jafnvel þótt við værum ekkert endilega sammála þeim öllum,“ segir Bergrún.
Hér má lesa eitt af ljóðum hennar úr bókinni Stofumyrkur :
09:38
Í augnablikinu sitjum við milli skýja. Samansafn stunda í
morgunþögninni er okkar til að neyta. (Sápukúluna okkar
rekur). Vetrartré svipt sumarbúningi heilsa okkur í hljóði,
með augun lokuð og fingur upp til himna. Heitir bollar af ein-
hverju drukknir hægt við gluggann, þar sem ekki einusinni
vindurinn blístrar hjá. Hver þekkir tímann á svona morgni?
Hann er konungur einskis hér. Steypt af stóli, kórónan í en-
durvinnslutunnunni. Í þessari morgunkyrrð er hann hvers-
dagslegur. Margþættur. Ósýnilegur. Magnaður. Ekkert.
Ása Jóhanns