Kristín Ragna Gunnarsdóttir tilnefnd til In Other Words-verðlauna
Kristín Ragna Gunnarsdóttir hefur verið tilnefnd til In Other Words-verðlaunanna, fyrir bók sína Úlfur og Edda: Dýrgripurinn. In Other Words-verðlaunum er úthlutað höfundum með annað móðurmál en ensku sem skrifa bækur ætluðum börnum 6 til 12 ára. Markmiðið er að kynna vandaðar barnabókmenntir víða að úr heiminum fyrir enskumælandi lesendum. Í ár eru átta höfundar tilnefndir og þar af eru tveir íslenskir því auk Kristínar Rögnu er Ævar Þór Benediktsson tilefndur fyrir bók sína Risaeðlur í Reykjavík.
Úlfur og Edda: Dýrgripurinn kom út árið 2016 og var tilnefnd til Fjöruverðlaunanna og Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2017. Sjálfstætt framhald kom síðan út núna fyrir síðustu jól og ber titilinn Úlfur og Edda: Drekaaugun.
Dómnefnd In Other Words-verðlaunanna segir um tilnefnda bók Kristínar Rögnu að hún sé gríðarlega skemmtileg ráðgáta og að allt við söguna sé bæði heillandi og skemmtilegt. Þá sé söguþráður hraður og haldi yngri lesendum vel við efnið.
In Other Words-verðlaunin verða afhent í London, 11. apríl næstkomandi.