Eitt er það land - Halldóra B. Björnsson
Í þessari bók – sem vel mætti kalla skáldævisögu – spinnur Halldóra B. Björnsson þætti úr bernskuminningum sínum, en hún ólst upp að Grafardal í Svínadal hjá foreldrum og sjö systkinum snemma á tuttugustu öld. Þættirnir eru felldir í eina listræna heild og fanga heim bernskunnar á dásamlegan máta. Mikið er dvalið við leiki barnanna sem beita ímyndunaraflinu í sköpun „Þykjastmannalandsins“ þar sem þau una sér best, fjarri amstri og relli fullorðna fólksins. Í Þykjastmannalandi getur allt gerst og börnin verða að hetjum, prinsum og prinsessum og fá útrás fyrir sköpunarkraft sinn. Þetta er útópía og griðastaður barnanna, einskismannaland sem er lokað hinum fullorðnu.
Eitt er það land hefur ýmsa snertifleti við Suðursveitarbækur Þórbergs Þórðarsonar. Líkt og Þórbergur leggur Halldóra áherslu á að þekking á íslensku sveitalífi í upphafi tuttugustu aldar sé að glatast vegna þess bagalega gáleysis að þeir sem þá lifðu „skyldu ekki taka einhverja skrifbókina sína til að pára í hana með stórum, ljótum stöfum og geyma niðrí kistli hjá sér eitthvað af öllu því skrítna, sem þeir heyrðu og sáu í gamla daga“ (Eitt er það land, 1955: 9). Halldóra vill bjarga þessarri þekkingu frá glötun gagngert til að fræða börnin sín um sína eigin bernsku. Það sem helst skilur lýsingu Halldóru frá lýsingu Þórbergs er að sjónarhorn hennar er kvenlegt og greinilegt að stelpur höfðu ekki sama frelsi til að leika sér og drengirnir; þær þurftu að sinna skyldum innanhúss sem töfðu þær frá þátttöku í leikjum utanhúss.
Eitt er það land og Suðursveitarbækur Þórbergs – sérstaklega Rökkuróperan – gefa okkur frábæra innsýn inn í hvernig íslensk börn léku sér í upphafi tuttugustu aldar, vopnuð ímyndunaraflinu framar öðru.
Stíll Halldóru er í senn ljóðrænn, innilegur og húmorískur og unaður að lesa. Tilvalið er að lesa hann upphátt fyrir börn því bókin er þeim kostum gædd að geta höfðað bæði til barna og fullorðinna.
Fyrsta útgáfa bókarinnar (1955) var prýdd teikningum Barböru Árnason og er líklega ófáanleg. Sagan var síðan endurbirt í Sögum íslenskra kvenna 1879-1960 sem kom út hjá Máli og menningu 1987.
Halldóra B. Björnsson. Eitt er það land. Reykjavík: Hlaðbúð, 1955.