SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir31. mars 2018

Villibirta - Unnur Eiríksdóttir

Skáldsögu Unnar Eiríksdóttur (1921-1976), Villibirtu, var ekki sérlega vel tekið þegar hún kom út árið 1969. Sagan fjallar um hina skyggnu og listhneigðu Brynju sem yfirgefur kyrrstæðan draumaheim æskunnar í sveitinni og heldur út í smáborgaralegan veruleika hernumdrar Reykjavíkur, verður ástfangin af heillandi, drykkfelldum draumóramanni, tapar sjálfstæði sínu, eignast barn og gefur drauma sína upp á bátinn. Jóhann Hjálmarsson fjallaði um söguna í Morgunblaðinu 4. apríl 1970 undir fyrirsögninni „Virðingarverð tilraun“. Hann segir að höfundi sé ekki lagið að ná þeirri fótfestu sem raunræissögu með þjóðfélagsádeilu er nauðsynleg. Hann horfir algerlega framhjá tilvistarstefnulegum pælingum sögunnar, hugmyndum um ást og list og draumkenndum köflum sem bylta raunsæisfrásögn á óvenjulegan og skapandi hátt, heldur lítur á allar formtilraunir og flug textans sem mistök af hendi höfundar.

Í Villibirtu má greina djúpan undirtexta um stöðu kvenna, frelsi, ást og örlagatrú, auk þess sem formtilraunir bera vott um áhrif frá tilvistarstefnu og módernisma. Í Brynju togast á frelsisþrá og örlagatrú sem á endanum hefur betur; „og nóttin kemur, hljóðum skrefum. Hvíslar í eyra mér: Þú ert jörð, þú ert mold. Uppruni þinn er örlög þín. Kona...“ (95). Brynja trúir þessu og sættir sig við að hennar bíði ekki annað en að sjóða fisk, prjóna og ala upp börn; það er engrar undankomu auðið.

Villibirta er býsna frumleg bæði í efnistökum og innihaldi. „Enda má telja Unni Eiríksdóttur til fyrstu kynslóðar módernista á Íslandi þótt bækur hennar hafi komið út alllöngu síðar en flestra jafnaldra hennar í skáldastétt. Slíkt var þó ekki óalgengt um kvenskáld og leiðir hugann að takmörkun bókmenntafræðinnar sem skipar skáldum í hópa eftir þröngum tímakvarða“ (Berglind Gunnarsdóttir 1991).

Það mætti gefa þessa sögu út á ný 2019 sem hljóð- eða rafbók, með fræðilegum formála þar sem m.a. væri fjallað um viðtökur skáldverka kvenna á þessum tíma.