SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir 2. apríl 2018

Æskan mín - Halla Eyjólfsdóttir

Ljóð vikunnar að þessu sinni er eftir Höllu Eyjólfsdóttur frá Laugabóli (1866-1937).

Æskan mín

Mín æska var einfaldur draumur,

sem aflvana barðist við þrána,

og þráin var þessi að mega

hjá þrotlausa brunninum sitja,

hjá brunninum ástar og unaðs

í alsælum fegurðarljóma,

en leiðin til hans var mér lokuð

og lykilinn hafði ég ekki.

En daglega sá ég til sólar

í síungu voninni minni,

hún sendi mér glóandi geisla,

er gagnóku sálina ungu

og hugurinn fylltist af friði,

af fögnuði þrútnaði hjartað,

og andinn, sem funaði af fjöri

mér framtíðarkastala byggði.

Ó, þá voru dýrðlegir draumar,

er dagarnir komu og fóru

og allir með eitthvað er gladdi,

þó aðeins í hillingum fjarri.

Ég ætlaði, ætlaði þangað,

en eitthvað á veginum tafði,

uns æskan mín fluglétt sem fuglinn

var farin, og skildi mig eftir.

Í leiðslu mig bar þá að brunni

og bergja ég vildi sem fleiri,

er lyst sína úr lífæð hans teygja

og logandi þorstanum svala,

en hann var svo hár og svo djúpur,

ég hafði ekki ráð á þeim veigum,

því krýp ég við lindina litlu,

er ljómandi kvöldsólin hnígur.