Elísabet Jökulsdóttir
Það er mjög við hæfi að Elísabet Jökulsdóttir sé skáld vikunnar að þessu sinni þar sem hún varð sextug 16. apríl síðastliðinn. Af því tilefni verður haldið um hana málþing næsta sunnudag í húsi Rithöfundasambandsins á Dyngjuvegi 8.
Elísabet Jökulsdóttir er eitt frjóasta og frumlegasta ljóðskáld okkar Íslendinga og lætur hún sér fátt fyrir brjósti brenna. Hún kom til dæmis landsmönnum skemmtilega á óvart þegar hún bauð sig fram til embættis forseta Íslands árið 2016 og fór hún þar á kostum. Mögulega hefur hún einnig komið sjálfri sér nokkuð á óvart því haft var eftir henni um þennan gjörning: „Sjitt,ég er í forsetaframboði!“
Samfara forsetaframboði og ýmsum gjörningum öðrum hefur Elísabet skrifað vel á þriðja tug bóka og eru þar á meðal skáldsögur, örsögur, leikrit og ljóð. Hún hefur tvisvar hlotið Fjöruverðlaunin; árið 2008 fyrir Heilræði lásasmiðsins, í flokki fræðirita, og árið 2015 fyrir ljóðabókina Ástin ein taugahrúga: Enginn dans við Ufsaklett en sú bók var einnig tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Nýjasta verk Elísabetar kom út fyrir síðustu jól en það er ljóðabókin Dauðinn í veiðarfæraskúrnum sem er kveðja hennar til móður sinnar.
Skáld.is óskar Elísabetu innilega til hamingju með sextíu árin og þakkar um leið fyrir ómetanlegt framlag hennar til íslenskra bókmennta.
Myndin af Elísabetu er sótt á heimasíðu hennar.