SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir10. mars 2018

Áhugavert Hugvísindaþing 2018

Að venju var margt áhugavert í boði á Hugvísindaþingi. Að lokinni þingsetningu í gær tók við opnunarfyrirlestur Marinu Warner, rithöfundar og prófessors í ensku og ritlist, og síðan rak hver málstofan aðra.

Skáld.is brá undir sig betri fætinum í dag og mætti á tvær afar áhugaverðar málstofur. Önnur þeirra bar yfirskriftina Bókmenntir og vistrýni en þar stigu Soffía Auður Birgisdóttir, Harpa Rún Kristjánsdóttir og Dagný Kristjánsdóttir á stokk. Soffia Auður fjallaði um náttúrusýn Virginiu Woolf eins og hún birtist í skáldsögu hennar Orlandó og áhrif skrifa Henry David Thoreau þar á. Harpa Rún beindi sjónum sínum að ólandssögum og sambandi manns og náttúru í skáldsögunni Lovestar eftir Andra Snæ Magnason. Loks fjallaði Dagný um kenningar um vistrýni og manngervinga og þann heimsendi sem vofir yfir í ungmennabókum Hildar Knútsdóttur Vetrarfrí og Vetrarhörkur.

Hin málstofan bar yfirskriftina Feminískar byltingar: berskjöldun, þekkingarréttlæti og vald en þar fluttu erindi Nanna Hlín Halldórsdóttir, Eyja Margrét Brynjarsdóttir og Gústav Adolf Bergmann Sigurbjörnsson. Nanna Hlín fjallaði um hugmyndir Butlers í ljósi berskjöldunar og sem viðbrögð við einstaklingshyggju nýfrjálshyggjunnar sem gerir fólki að birtast sem „hinn sterki einstaklingur“ til þess að öðlast lífsviðurværi í hinu kapítalíska vinnukerfi. Eyja Margrét fjallaði um hvernig þöggun kemur fram við hunsun hinna valdameiri og hvernig líta megi á MeToo-herferðina sem andóf gegn því þekkingarlegu ranglæti að áreitnin hafi ekki átt sér stað. Gústav Adolf hélt erindi um tengsl frásagna, á borð við MeToo sögur, og þess reynsluheims sem þær spretta úr og hvernig beri að skilja ásakanir um að hinar og þessar upplifanir séu ekki raunverulegar.