SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir 3. maí 2018

Guðrún Helgadóttir

Guðrún Helgadóttir er skáld vikunnar. Hún fæddist 7. september 1935 í Hafnarfirði. Guðrún er landskunn fyrir ritstörf sín en einnig hefur hún látið mjög að sér kveða á sviði stjórnmála og sat hún á alþingi árin 1979-1995.

Guðrún hefur glatt bæði unga lesendur og aldna frá því að fyrsta bókin um Jón Odd og Jón Bjarna kom út árið 1974. Bækurnar um uppátektasömu tvíburana urðu þrjár og hafa þær allar verið endurútgefnar mörgum sinnum auk þess sem gerð hefur verið kvikmynd byggð á sögunum.

Guðrún hefur sent frá sér á þriðja tug verka og hlotið fyrir fjölda verðlauna og viðurkenninga. Hún hlaut Norrænu barnabókaverðlaunin árið 1992 fyrir bók sína Undan illgresinu, var tilnefnd til H.C. Andersen verðlaunanna 1988 og bókin Öðruvísi fjölskylda var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2004, svo að fátt eitt sé nefnt. Árið 2005 hlaut hún Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar fyrir framlag sitt til íslenskrar tungu og nú síðast, 22. apríl síðastliðinn, hlaut hún Sögusteininn, heiðursverðlaun IBBY á Íslandi, fyrir ómetanlegt framlag hennar til íslenskra barnabókmennta.

Myndin af Guðrúnu Helgadóttur er fengin af síðu Mýrinnar - Bókmenntahátíð